Helga B

Hugvekja sem Helga Björk Jónsdóttir, djákni, flutti í Vídalínskirkju þann 22. apríl 2018. 

 

Mig langar að segja ykkur sögu af sjálfri mér. Hún er ekki um hvað ég er fullkomin heldur fjallar hún um einn af mínum stóru göllum. Sá galli er að ég er oft svo stressuð og kvíðin. Það er í trúarlegu samhengi oft litið á það sem trúleysi eða galla að geta ekki slakað vel á og fundið fyrir kyrrð og ró innra með sér. Þessari ró sem við sækjumst svo mörg eftir.

 

Guð lofar svo oft í orði sínu að ef við leitum hans muni hann gefa okkur sinn frið. Frið sem er ekki af þessum heimi. Ég er stundum þannig að ég get ekki sofnað fyrir stressi. Ég var samt verri fyrir nokkrum árum. Þá var ég stundum að velta fyrir mér hvort Guð væri ekki að gleyma mér í daglegum önnum sínum Ég gerði fátt annað en biðja hann um frið…innri frið og ég bað hann að færa mér hann strax. Svo hélt ég áfram að gera það sem ég var vön. Ég beið óþreyjufull eftir því að himnarnir opnuðust og friður Guðs sem er æðri öllum skilningi kæmi yfir mig þar sem ég hljóp um eins og hamstur í hjóli.

 

Reyndar var ég svo slæm að ég brann út í starfi mínu sem kennari af því að ég hlustaði ekki á líkama minn þegar hann var kominn með appelsínugult viðvörunarljós og öll einkenni of mikils álags sem endaði með því að ég lenti á vegg. Komst ekki lengra og varð að taka líf mitt til gagngerrar endurskoðunar. Eins og gefur að skilja var ég þá mjög léleg í því að slaka á. Ég hafði í raun engan áhuga á slíkum óþarfa. Að gera ekkert. Ég þoldi ekki tilhugsunina um að hafa ekkert fyrir stafni.

 

Ég er alin upp við mikinn dugnað og í beinan kvenlegg langt aftur í ættir eru ekkert nema miklar valkyrjur sem stoppuðu sjaldan. Ég hef alla mína tíð heyrt sögur af langömmum og ömmum, frænkum og langalangömmum sem létu ekkert stoppa sig og kannski upplifði ég að ég hlyti að ég eiga að vera eins og þær. Mamma mín er duglegasta kona sem ég þekki og hún stoppar sjaldan. Dugnaður er því sú dyggð sem ég lagði hvað mesta áherslu á í lífinu.

 

Ég gleymi því aldrei þegar ég lá á gólfinu í íþróttahúsinu á Reykjalundi (þangað komin af því að ég kunni ekki að slaka á) og allir voru í slökun eftir hádegismatinn. Ég lá þarna á dýnu með teppi yfir mér og átti bara að anda. Anda í takt við slakandi tónlist sem gerði ekkert nema pirra mig. Mér fannst ég hafa verið kyrr í margar klukkustundir þegar ég stalst til að líta á klukkuna og sá að einungis voru liðnar sex mínútur af tímanum og enn voru tuttugu og fjórar eftir! Ég hélt ég myndi deyja úr pirringi. Mig klæjaði út um allt og ég fékk óstöðvandi löngun til þess að hlæja upphátt eða fara. Koma mér út úr þessum illa nýtta tíma við letihangs.

Ég gat ekki staðið upp og farið því þá hefði ég skemmt slökunina fyrir hinum og ég var við það að ærast úr pirringi þegar loksins var slökkt á gargandi yoga-suðinu í græjunum og ég mátti standa á fætur og fara að gera eitthvað af viti.

 

Ég hét sjálfri mér því að undan þessu myndi ég reyna að komast fljótt og rækilega. Ég sá fyrir mér hvernig ég færi að því að sannfæra iðjuþjálfann minn og sjúkraþjálfarann um að ég ætti betur heima í hóp sem „notaði tímann” frekar en að hanga undir teppi í íþróttasal rétt fyrir ofan Mosfellsbæ. Það fór aldrei svo að ég reyndi það því að fyrirlesturinn strax á eftir slökunni fjallaði um listina að gera ekki neitt. Þar hlustaði ég á fagmenn í endurhæfingu segja okkur sem þarna vorum komin, allt um það hversu miklu máli það skiptir að gefa líkamanum tækifæri til þess að slaka á. Að endurhlaða batteríin og gefa sér tækifæri til að vera kyrr í núinu. Þau sögðu líka að slökun væri eins og flest annað í lífinu. Það þyrfti að æfa hana og að maður gæti verið í slæmu slökunarformi til að byrja með en svo breyttist það smátt og smátt en bara ef þú æfir þig. Þú getur ekki orðið sérstaklega góður í slökun nema með því að stunda slökun.

 

Ég man eftir að hafa lagst á koddann þetta kvöld og átt langt samtal við Guð. Ég bað Guð að gefa mér æðruleysi til að sætta mig við það að ég væri ekki góð í þessu en hjápa mér að breyta því. Ég vonaði að hann gæti hjálpað mér að losna við samviskubitið sem fólst í því að ná ekki innri ró þrátt fyrir góðan vilja og bað hann jafnframt að mæta mér þar sem ég væri stödd, halda utan um mig og koma mér í gegnum annan svona slökunartíma og kannski með tíð og tíma gefa að ég kæmist í aðeins betra slökunarform.

 

Ég mætti aftur í hangsið daginn eftir og daginn þar á eftir. Það tók mig þó nokkur skipti að kunna að meta það sem þarna fór fram. Það sem í fyrstu var kvíðvænleg pína eftir hádegi varð hægt og rólega að því sem gerði daginn betri og viðráðanlegri. Líkaminn lærði smátt og smátt að róa sig niður og ég fór að hlakka til þess að endurhlaða orkuna í miðjum deginum. Ég fann að Guð var með mér og í þetta skiptið myndi hann hjálpa mér að læra að slaka á. Ég áttaði mig á því þarna að það er fátt sem ég get gert eins vel og hægt er í eigin mætti. Ég get ekki einu sinni slakað á án hjápar. Ég var búin að sjá þetta í öðrum aðstæðum áður en þarna þegar ég lagði vangetu mína til þess að róa mig niður í fang Guðs kom hann og hjálpaði mér. Hann opnaði faðminn og bauð mér ró og frið ef ég aðeins gæfi mér og honum tíma til þess að æfa það.

 

Einhverra hluta vegna er það þannig að í vanmætti okkar mannanna er Guð sterkur. Hann fær pláss til þess að vinna sitt verk ef við viðurkennum að við getum það ekki.  Síðan þá hef ég stundað slökun flesta daga og finn mikinn mun þegar ég sleppi því. Ég er búin að koma mér upp góðu safni af (pirrandi) slökunartónlist og ég raða deginum mínum þannig upp að ég slaka oftast á um miðjan vinnudag. Stundum keyri ég upp í Heiðmörk og slaka á í bílnum en lang oftast fer ég heim. Þessar slökunarstundir mínar eru sambland af bæn og þögn. Ég leggst fyrir í faðmi Guðs og bara anda. Geri ekkert. Undir teppi. Og það sem meira er…ég elska það!

 

Helga Björk Jónsdóttir djákni í Vídalínskirkju.