Árið 2011 frétti ég af íhugunarhóp í Bókasafninu á Hvolsvelli sem hittist einu sinni í viku. Af forvitni sló ég til og byrjaði að iðka kyrrðarbæn með hópnum. Í fyrstu lét ég nægja að iðka eingöngu með hópnum og fann vellíðan eftir hvert skipti. Árið 2013 las ég bókina Vakandi hugur, vökult hjarta eftir Thomas Keeting. Þá óx skilningur minn á tilgangi kyrrðarbænarinnar og ég byrjaði að iðka daglega. Kyrrðin og kærleikurinn byrjaði að vaxa hraðar í hjarta mínu og fólkið sem stóð mér næst hafði orð á því að ég væri rólegri og þægilegri. 


Sú reynsla að iðka þögula kyrrðarbæn í 20 mínútur, einu sinni til tvisvar á dag hefur komið af stað mögnuðu ferðalagi, umbreytingu og andlegri vakningu í lífi mínu. Að taka svo lengi eftir hugsunum sínum án þess veita þeim sérstaka athygli gerir mér kleift að þekkja mig betur með kostum mínum og göllum. 


Kyrrðin kallar á mig á hverjum degi og þráir það eitt að vera með mér, lækna mig og hreinsa. Með hverjum deginum verð ég ástfangnari af kyrrðinni sem ég kalla Jesú Krist í minni innstu veru. Að eyða tíma mínum í slíku ástarsambandi er uppbyggilegt á alla vegu. Svo æfi ég mig í því að endurspegla þessa elsku til allra í kringum mig og mér reynist það auðvelt þegar ég missi ekki úr iðkuninni. 


Drottinn Jesús Kristur, miskunna mér, syndugum.

Með þakklætiskveðju,
Benedikt Arnar Víðisson