Í hvert sinn gerast einhver kraftaverk

Kyrrðarbænaiðkandi deilir upplifun sinni af Kyrrðarbæn og Kyrrðardögum

Ég kynntist kyrrðarbæninni fyrir alvöru 2016 þegar ég skráði mig á kyrrðardaga á vegum Contemplative Outreach á Íslandi. Það er skemmst frá því að segja að ég kynntist sjálfri mér á alveg nýjan hátt. Nú hef ég farið fjórum sinnum á slíka kyrrðardaga og í hvert sinn gerast einhver kraftaverk. Ég sé nýjar hliðar á mér og lífinu. Þar hef ég getað gert upp gamla hluti sem hafa fylgt mér lengi. Að hugleiða í  um þrjár klukkustundir á dag og heyra ekki mælt mál inná milli gerir það að verkum að maður heyrir í sér. Ég heyri hvernig innra talið fyllir öll vit þegar hausinn byrjar að reyna að fylla uppí tómarúmið sem myndast þegar allt áreiti er tekið frá manni. Ég finn fyrir lönguninni til að grípa í símann og opna tölvupóstinn. Svo róast allt, og ég tek eftir hugsunum mínum. Það besta sem gerist, það sem mér þykir vænst um en er jafnframt það erfiðasta er sjá hvernig ég tala við sjálfa mig. Hvernig orðanotkunin er, hvernig sögur ég segi mér, orð og sögur sem hafa verið þarna kannski árum saman. Sögur og fullyrðingar sem ég hef sagt mér jafnvel frá barnæsku en aldrei tekið eftir. Þetta hefur allt verið svo sjálfsagt og áreitið í lífinu verið svo mikið að ég hef aldrei stoppað til að spyrja mig hvers vegna ég tali svona við mig, hvort þetta séu mínar skoðanir, hvaðan viðhorf mín koma og hvort þau séu sönn.

Það er erfitt að mæta sjálfum sér. Ég hef prófað aðrar tegundir íhugunar en tengi best við kyrrðarbænina. Sennilega vegna þess að þegar ég mæti sjálfri mér finnst mér gott að vita að ég er ekki ein, ég er ekki ein á þessum stól að hlusta á minn eigin andadrátt. Kyrrðarbænin gengur útá að samþykkja nærveru Guðs. Það að vita að ég dvel í kærleika þegar ég mæti mér gefur mér kraft til að gera nákvæmlega það, að hlusta á mig, horfast í augu við tilfinningar mínar, skoðanir og þá reynslu sem ég á. Í því liggur kraftaverkið, því það er ekki fyrr en ég viðurkenni sannleikann að ég öðlast getu til að breyta. Þegar ég viðurkenni sannleikann get ég horft á hann gagnrýnum augum og spurt mig hvort þetta sé í raun það sem ég vil, hvort þetta séu skoðanir sem ég vil hafa, hvort þetta séu sögurnar sem ég vil segja sjálfri mér.

Það sem dagleg ástundun kyrrðarbænar gefur mér jafnframt er að þegar ég sest niður í byrjun dags þá heyri ég suðið. Ég heyri hverjar áhyggjur dagsins eru, ég veit hvernig ég er stemmd og þá verður dagurinn alltaf allur annar. Ég næ ekki alltaf að sefa áhyggjur eða leysa vandamál en ef ég er illa stemmd, þá veit ég það og get tekið tillit til mín. Ef ég öskra á vitleysingana í umferðinni eða bölva fólkinu í vinnunni (sem kemur fyrir) þá veit ég hvaðan það kemur, af því að ég heyrði í mér þann morguninn og veit hvaða innra ójafnvægi ég tók með mér út í daginn. Ég get líka fundið fyrir návist Guðs í deginum, ég skil hann ekki eftir á stólnum. Ég sé hann oftar í því sem er að gerast og veit hann er þarna þegar eitthvað kemur uppá. Það er ómetanleg gjöf.

Höfundur vill ekki láta nafns síns getið.

Auglýsingar
Birt í Uncategorized

Kyrrðarbænanámskeið í Laugarneskirkju

Dagsnámskeið um Kyrrðarbæn (Centering Prayer) verður haldið í Laugarneskirkju þann 9. mars frá kl. 10 – 14. Námskeiðsgjald er kr. 3500, innifalin eru námsgögn og léttur hádegisverður. Kennarar námskeiðsins verða Hjalti Jón Sverrisson og Henning Emil Magnússon ásamt leiðbeinanda sínum Sigurbjörgu Þorgrímsdóttur. Skráning fer fram á kyrrdarbaen@gmail.com eða í síma: 849 2048.
Kyrrðarbæn er íhugunaraðferð úr kristinni hefð sem hefur verið stunduð í einhverri mynd frá frumkristni. Á námskeiðinu verður fjallað um þessa íhugunaraðferð, hún kennd og iðkuð.
Kyrrðarbæn er afar einföld iðkun sem gengur út á að hvíla í nærveru Guðs og samþykkja verk heilags anda innra með okkur. Þó aðferðin sé einföld hefur hún umbreytandi áhrif á iðkandann með auknum andlegum þroska sem leiðir m.a. til aukinnar sjálfsþekkingar og dýpra sambands við Guð og menn.

Birt í Uncategorized

Námskeið um fyrirgefningu í Grindarvíkurkirkju

Námskeið um fyrirgefningu í Grindarvíkurkirkju, Grindavík laugardaginn 2. mars 2019, kl. 09:00-17:00

Hugleiðslubænin „Kyrrðarbæn (Centering Prayer)“ verður iðkuð ásamt fræðslu um fyrirgefninguna og mikilvægi hennar.

Mæting laugardaginn 2. mars, kl. 09:00. Dagskránni lýkur kl. 17:00.

Umsjón: Sr. Elínborg Gísladóttir og Sigurbjörg Þorgrímsdóttir, djáknakandídat, leiðbeinendur Kyrrðarbænarinnar.

Verð: kr. 5.000,-. Innifalið í verðinu er námskeið, hádegisverður, miðdegiskaffi og námskeiðsgögn.

Skráning og nánari upplýsingar fer fram á netf. sigurth@simnet.is eða í síma 861-0361 (Sigurbjörg). Vinsamlega staðfestið skráningu með því að greiða inná reikning Kyrrðarbænasamtakanna: 0114-26-1513 kt. 450613-1500.

Bókin Vakandi hugur, vökult hjarta er fyrsta bók Thomasar Keatings sem kemur út á íslensku og í raun fyrsta bókin sem fjallar um Kyrrðarbænina á íslensku. Thomas Keating var einn af upphafsmönnum Kyrrðarbænarhreyfingarinnar en hann lést á síðasta ári 95 ára að aldri. Hann var prestur, ábóti, munkur og rithöfundur í reglur Benedikts frá Núrsía í Snowmass, Colorado í Bandaríkjunum. Þar hafði hann umsjón með kyrrðardögum með áherslu á iðkun Kyrrðarbænarinnar sem er ein af hornsteinum kristinnar íhugunnar.
Keating skrifaði fjölda bóka um Kyrrðarbænina og kristna íhugun, þeirra á meðal metsölubókina Open Mind, Open Heart sem á íslensku hefur fengið heitið Vakandi hugur, vökult hjarta.
Í þeirri bók lýkur höfundur upp fyrir lesandanum veröld þar sem Guði er ekkert ómögulegt. Nýjar og ævintýralegar víddir opnast, …,,því þegar hugur og hjarta er opið fyrir Guði, sem er óendanlegur , verður maður einnig opinn fyrir ótakmörkuðum möguleikum”.

Birt í Uncategorized

Kyrrðarbænanámskeið í Egilstaðakirkju

Dagsnámskeið um Kyrrðarbæn (Centering Prayer) verður haldið í Egilstaðakirkju þann 23. febrúar frá kl. 10 – 15. Námskeiðsgjald er kr. 3500 (greitt með pen.á staðnum). Innifalið eru námsgögn og léttur hádegisverður. Kennari námskeiðsins verður Dagmar Ósk Atladóttir ásamt leiðbeinanda sínum Sigurbjörgu Þorgrímsdóttur. Skráning fer fram hjá sr. Þorgeiri Arasyni á netfanginu: thorgeir.arason(hja)kirkjan.is eða í síma 847-9289.
Kyrrðarbæn er íhugunaraðferð úr kristinni hefð sem hefur verið stunduð í einhverri mynd frá frumkristni. Á námskeiðinu verður fjallað um þessa íhugunaraðferð, hún kennd og iðkuð.
Kyrrðarbæn er afar einföld iðkun sem gengur út á að hvíla í nærveru Guðs og samþykkja verk heilags anda innra með okkur. Þó aðferðin sé einföld hefur hún umbreytandi áhrif á iðkandann með auknum andlegum þroska sem leiðir m.a. til aukinnar sjálfsþekkingar og dýpra sambands við Guð og menn.

Birt í Uncategorized

Fræðslumorgun í Digraneskirkju fyrir iðkendur Kyrrðarbænarinnar

Digraneskirkja í Kópavogi

Laugardaginn 16. febrúar verður fræðslumorgun í Digraneskirkju, Digranesvegi 82 200 Kópavogi frá kl. 10 – 13. Í upphafi verður tvöföld iðkun með gönguíhugun á milli inn í kirkjunni. Súpa og samfélag verður á eftir sem kostar 1000 kr.

Horft verður á myndband með Thomas Keating um sálfræðimeðferð Guðs og umræður á eftir. Þetta efni Keatings er gagnleg og mikilvæg þekking fyrir alla sem eru farnir af stað í Kyrrðarbæn. Iðkendur Kyrrðarbænarinnar eru allir hjartanleg velkominir. Vinsamlegast látið vita fyrir hádegi á föstudag um mætingu vegna matarinnkaupa á netfangið barafrid@gmail.com.

Kær kveðja, sr Bára og Ingunn, umsjónarmenn Kyrrðarbænarhópsins í Digraneskirkju.

Birt í Uncategorized

Er Kyrrðarbæn núvitund?

Dagur Fannar Magnússon

Núvitund er sögð fela það í sér að upplifa augnablikið í fullnustu sinni án þess að láta hugsanir og tilfinningar úr fortíð og framtíð trufla sig og án þess að dæma upplifunina á nokkurn hátt. Núvitund er ekki aðeins bundin við íhugunaraðferðir heldur er íhugun í raun æfing í núvitund. Líkja mætti þessu við það að fara í ræktina og stunda markvissa hreyfingu til þess að styrkja líkamann. Með íhugun erum við að þjálfa hugann til þess að vera í núinu. Til eru margskonar íhugunaraðferðir til þess að rækta þessa tilteknu vitund sem þróast svo út í það að vera núvist. Núvist er eiginleiki sem hjálpar okkur að dvelja og vera í núinu. Kyrrðarbæn er ein þessara íhugunaraðferða sem styrkja núvitund bæði í íhugun og í daglegu amstri. Rannsóknir á núvitundaraðferðum, þá sérstaklega Núvitundar grundvallaðri streitu minkunn (e. MBSR, Mindfulness-Based Stress Reduction), hafa sýnt fram á að aðferðirnar geti meðal annars stuðlað að bættu líkamlegu og andlegu heilbrigði. Þá hefur til dæmis verið sýnt fram á að við getum virkjað heilann um 10 – 15% umfram það sem við gerum venjulega með því að stunda núvitund. Hvort sem um er að ræða bein tengsl eða ekki hefur einnig verið sýnt fram á bætta námsframmistöðu og að hægt sé að hægja á heilahrörnunarsjúkdómum og elliglöpum. Við ástundun núvitundar dregur heilinn úr framleiðslu streituhormóna og getur þar af leiðandi hjálpað fólki að vinna úr þunglyndi, streitu og kvíða. Þá er núvitund einnig sögð hafa jákvæð áhrif á ónæmis-, hjarta- og æðakerfi. Hér að framan eru aðeins talin upp nokkur dæmi mögulegra jákvæðra áhrifa núvitundar á líf einstaklings og enn er verið að gera fjölda rannsókna.

Þar sem Kyrrðarbænin er mjög áþekk öðrum núvitundaræfingum og mjög sambærileg iðkun Núvitundar grundvallaðri streitu minkunn er ekki ólíklegt að hún geti haft sambærileg áhrif. Kyrrðarbænin er stunduð þannig að viðkomandi velur sér eins til tveggja atkvæða bænaorð sem tákn um ásetning sinn, að hvíla í nærveru Guðs. Biðjandinn kemur sér svo þægilega fyrir í ákveðinn tíma og snýr sér blíðlega að bænarorðinu þegar hugsanir og tilfinningar taka hann frá ásetningnum.  Í ástundunni getur komið að því að hugsanir og tilfinningar leita ekki lengur á mann og maður nær að slíta sig frá veraldlegum áhyggjum. Með öðrum orðum nær maður að tæma hugann og Guð kemst að og fyllir upp í það tóm sem áður voru hugsanir og tilfinningar. En er þá aðferð Kyrrðarbænarinnar bæn? Þegar leitað er svara við þessari spurningu er áhugavert að líta til athugana Friedrich Heiler á bænum. Hann flokkaði þær niður í sjö flokka og þar segir hann frá bænaflokki sem kallast Bæn hins mikilfenglega trúarlega persónuleika (e. the prayer of great religious personalities) en þær skiptast í tvo flokka. Annar flokkurinn, sem er kallaður „dulrænn“, snýr fyrst og fremst að því þegar biðjandinn snýr sér frá heiminum, hinu hlutlæga og jafnvel sjálfinu, að óendanleikanum, þar sem markmiðið er að vera í alsælli einingu (e. ecstatic union) með Guði. Reikandi hugsunum er leift að dvína og hverfa og er biðjandinn þá móttækilegri fyrir nærveru Guðs. Samkvæmt Heiler þarf íhugun að fela í sér meðvitund um nærveru Guðs svo hún sé bæn. Þó er erfiðara að fullyrða um það hvort að allar íhugunaraðferðir sem leiða mann inn í núvitund séu bænir í þessum skilningi. Aftur á móti er fólk sem stundar íhugun mjög reglulega (sama af hvaða gerð hún er) oft sammála um að það upplifi eitthvað sem er stærra, meira og ekki af þessum heimi. Það hefur verið kallað Verandinn, Guð, Brahman eða einfaldlega eitthvað sem fólk getur ekki lýst með orðum. Kyrrðarbænin passar nokkuð vel inn í þessa lýsingu Heilers. Fólk stundar Kyrrðarbæn af því að hún er hluti af trú og trúarhefð þess. Þrátt fyrir að hún sé nokkuð ný af nálinni þá á hún djúpar rætur í sambærilegu bænahaldi, allt til Eyðimerkurfeðranna og mæðranna, í gegnum reglu Benediktarklaustranna, Teresu frá Avila, til bókarinnar The Cloud of Unknowing (frá 14. öld) og fleiri kristinna dulspekihefða. Kyrrðarbænin gæti því verið ein leið til þess upplifa Guðsríki hér og nú ásamt því að upplifa samfélag og einingu með Guði. Það gæti nú verið efni í aðra grein og ríflega það.

 Þessi grein er unnin upp úr BA ritgerð minni „Guðsríki er innra með yður og meðal yðar: Hvað er líkt og ólíkt með kristinni kyrrðarbæn og vestrænni núvitund?“ http://hdl.handle.net/1946/27366 Dagur Fannar Magnússon

Birt í Uncategorized

Kyrrðarbænanámskeið í Grindavíkurkirkju

Dagsnámskeið um Kyrrðarbæn (Centering Prayer) verður haldið í Grindarvíkurkirkju þann 16. febrúar frá kl. 10 – 15. Námskeiðsgjald er kr. 3500 (greitt með pen.á staðnum). Innifalið eru námsgögn og léttur hádegisverður. Kennarar námskeiðsins verða sr. Elínborg Gísladóttir og Sigurbjörg Þorgrímsdóttir, leiðbeinendur Kyrrðarbænarinnar. Skráning fer fram á netfanginu: srelinborg@simnet.is eða í síma 696-3684 (Elínborg).
Kyrrðarbæn er íhugunaraðferð úr kristinni hefð sem hefur verið stunduð í einhverri mynd frá frumkristni. Á námskeiðinu verður fjallað um þessa íhugunaraðferð, hún kennd og iðkuð.
Kyrrðarbæn er afar einföld iðkun sem gengur út á að hvíla í nærveru Guðs og samþykkja verk heilags anda innra með okkur. Þó aðferðin sé einföld hefur hún umbreytandi áhrif á iðkandann með auknum andlegum þroska sem leiðir m.a. til aukinnar sjálfsþekkingar og dýpra sambands við Guð og menn.

Birt í Uncategorized

Námskeið í Kyrrðarbæn

Dagsnámskeið um Kyrrðarbæn (Centering Prayer) verður haldið í Neskirkju þann 2. febrúar frá kl. 10 – 15. Námskeiðsgjald er kr. 3500, innifalin eru námsgögn og léttur hádegisverður. Kennarar námskeiðsins verða Bylgja Dís Gunnarsdóttir og Erla Björg Káradóttir ásamt leiðbeinanda sínum Sigurbjörgu Þorgrímsdóttur. Skráning fer fram á kyrrdarbaen@gmail.com, í síma: 661 7719 eða hjá prestum Neskirkju.
Kyrrðarbæn er íhugunaraðferð úr kristinni hefð sem hefur verið stunduð í einhverri mynd frá frumkristni. Á námskeiðinu verður fjallað um þessa íhugunaraðferð, hún kennd og iðkuð.
Kyrrðarbæn er afar einföld iðkun sem gengur út á að hvíla í nærveru Guðs og samþykkja verk heilags anda innra með okkur. Þó aðferðin sé einföld hefur hún umbreytandi áhrif á iðkandann með auknum andlegum þroska sem leiðir m.a. til aukinnar sjálfsþekkingar og dýpra sambands við Guð og menn.

Birt í Uncategorized

Ljóð eftir Mary Oliver

Mary Oliver (1935 – 2019)

Ljóðskáldið Mary Oliver lést 17. janúar síðastliðin 83 ára að aldri. Hún hlaut m.a. Pulitzer Prize verðlaunin fyrir skáldskap sinn og var þekkt fyrir að vera hreinskilin og beinskeitt í ljóðum sínum. „Ég gæti ekki ort án náttúrunnar,“ skrifaði hún. „Einhverjir gætu það. En ekki ég. Fyrir mér eru dyrnar inn í skóginn eins og dyrnar inn í musterið.“
 
Mary skrifaði um viðkvæm augnablik og mannlega tilvist af mikilli innsýn og höfðar gjarnan til þeirra sem iðka íhugun. Gyrðir Elíasson hefur þýtt nokkur ljóð eftir hana og hér að neðan er ljóðið Þegar dauðinn kemur í þýðingu hans. Þar sem ég get ekki þýtt eins vel og Gyrðir læt ég fylgja með tilvitnun í Mary óþýdda þar sem hún talar um ljóð:

“For poems are not words, after all, but fires for the cold, ropes let down to the lost, something as necessary as bread in the pockets of the hungry.”

Þegar dauðinn kemur

Þegar dauðinn kemur

einsog hungraður björn að hausti;

þegar dauðinn kemur og tekur alla

glóandi peningana úr buddu sinni

til þess að kaupa mig, og lokar síðan

buddunni með smelli; þegar dauðinn

kemur einsog mislingarnir

þegar dauðinn kemur

einsog ísklumpur milli herðablaðanna

mig langar að stíga inn um dyrnar

full af forvitni, hugsa: hvernig ætli

það sé, þetta hús myrkursins?

Og þess vegna lít ég á allt sem

bræðralag, sem systralag,

og ég lít á tímann aðeins sem hugmynd,

og ég íhuga eilífðina sem annan möguleika.

Og ég hugsa um hvert líf sem blóm, jafn

algengt og akurlilju, og jafn einstakt,

og sérhvert nafn kliðmjúk tónlist á vörum

og vísar, einsog öll tónlist gerir, í átt til

þagnarinnar,

og sérhver látinn er sem hugprútt ljón

og jörðinni svo dýrmætur.

Þegar lokin koma, vil ég geta sagt

að allt mitt líf hafi ég verið brúður

sem giftist undruninni.

Að ég hafi verið brúðgumi sem tók

heiminn mér í fang.

Þegar lokin koma, vil ég ekki þurfa að

velta því fyrir mér hvort ég hafi gert

eitthvað sérstakt úr lífi mínu, og

raunverulegt.

Ég vil ekki verða andvarpandi

og skelfd eða full gremju.

Ég vil ekki að það endi einfaldlega

svo að ég hafi aðeins verið gestur

á þessari jörð.

(Bylgja Dís Gunnarsdóttir)

Birt í Uncategorized

Kyrrðarbæn í Guðríðarkirkju á mánudögum

Kyrrðarbænahópurinn í Guðríðarkirkju hittist á mánudögum kl. 17:30 – 18:30. Byrjendur mæti kl. 17:10. Allir eru hjartanlega velkomnir. Guðrún Fríður Heiðarsdóttir leiðir hópinn.

Birt í Uncategorized