Námskeið í Fagnaðarbæn í Hafnarfjarðarkirkju

Námskeið um Fagnaðarbæn (Welcoming prayer) verður haldið í Hafnarfjarðarkirkju laugardaginn 23. nóvember 2019 frá kl. 09:00 til 17:00.

Hvað er Fagnaðarbæn?
Fagnaðarbæn er leið/aðferð til að samþykkja nærveru og verkan Guðs í líkamlegum og tilfinningalegum viðbrögðum okkar gagnvart atburðum og aðstæðum í daglegu lífi.

Tilgangur Fagnaðarbænarinnar er að dýpka samband okkar við Guð með því að játast nærveru hans og verkan í hversdagslegum athöfnum okkar. Fagnaðarbænin hjálpar okkur til að sleppa tökunum á ýmsu því sem íþyngir okkur og veitir okkur þannig aukið innra frelsi. Fagnaðarbænin er frábær aðferð til að styðja við umbreytinguna sem hefst í Kyrrðarbæninni (Centering prayer).

Umsjón með námskeiðinu hafa: Bylgja Dís Gunnarsdóttir, söngkona og Sigurbjörg Þorgrímsdóttir, djáknakandídat, leiðbeinendur Kyrrðarbænarinnar.

Námskeiðsgjald kr. 5.000,-. Innifalið: Námskeið, námskeiðsgögn og matur.

Skráning og nánari upplýsingar hjá Sigurbjörgu í síma 861-0361 og/eða á netfangi: sigurth@simnet.is eða Bylgju Dís í síma 661-7719 og/eða á netfangi: bdgsopran@gmail.com

Vinsamlega staðfestið þátttöku með því að greiða inná reikning Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi: 0114-26-1513 kt. 450613-1500

Birt í Uncategorized

Námskeið í Kyrrðarbæn í Mosfellsbæ

Dagsnámskeið um Kyrrðarbæn (Centering Prayer) verður haldið í safnaðarheimili Mosfellsprestakall þann 5. október  frá kl. 10 – 16. Námskeiðsgjald er kr. 3500 (greitt með gíróseðli). Innifalið eru námsgögn og léttur hádegisverður. Kennarar og leiðbeinendur námskeiðsins verða sr. Arndís G. Bernhardsdóttir Linn og sr. Ragnheiður Jónsdóttir. Hægt verður að skrá sig hér á heimasíðu Lágafellssóknar eða hjá sr. Arndísi á netfanginu: arndis.linn@lagafellskirkja.is

Kyrrðarbæn er íhugunaraðferð úr kristinni hefð sem hefur verið stunduð í einhverri mynd frá frumkristni. Á námskeiðinu verður fjallað um þessa íhugunaraðferð, hún kennd og iðkuð.
Kyrrðarbæn er afar einföld iðkun sem gengur út á að hvíla í nærveru Guðs og samþykkja verk heilags anda innra með okkur. Þó aðferðin sé einföld hefur hún umbreytandi áhrif á iðkandann með auknum andlegum þroska sem leiðir m.a. til aukinnar sjálfsþekkingar og dýpra sambands við Guð og menn.

Nánari upplýsingar má fá hjá Ragnheiði eða Arndísi í síma: 5667113

Birt í Uncategorized

Stormviðri hugans – Vangaveltur um áföll og sorgir Jobs í tengslum við núvitund eftir Dag Fannar Magnússon

Stormviðri hugans – Vangaveltur um áföll og sorgir Jobs í tengslum við núvitund
eftir Dag Fannar Magnússon

Stormviðri hugans – Vangaveltur um áföll og sorgir Jobs í tengslum við núvitund eftir Dag Fannar Magnússon

Núvitund er, eins og kannski mörgum er kunnugt, listin að lifa meðvitaður í núinu. Það er að segja að veita umhverfi sínu, tilfinningum og hugsunum eftirtekt án þess að leggja á þær dóm.  Það er að segja maður dvelur í núinu og reynir að stöðva flæði hugsanna sem reika á milli fortíðar og framtíðar. Þegar hugsanir og tilfinningar sækja á mann er markmiðið að leyfa þeim að fljóta í burtu. Job var maður sem getið er um í Gamla testamentinu. Hann var réttlátur og góður, fylgdi lögmálinu og færði fórnir.

Á tíma Jobs trúðu menn á svokallaða endurgjalds kenningu. Sú kenning þekkist einnig undir hugtakinu karma og kemur úr austrænum trúarbrögðum. Kenningin gengur út á að sé maður réttlátur og góður muni það koma til manns aftur í hamingjusömu lífi og vellystingum en sé maður ranglátur, vondur og syndgi þá muni það sannarlega bíta mann í rassinn. Samkvæmt sögunni var Job í hópi réttlátra og trúfastra manna en lenti í því að missa börnin sín öll í einu, búfénaðnum var öllum rænt og eins og þetta væru ekki nægileg áföll þá varð hann holdsveikur ofan í þetta allt saman. Eftir stendur Job allslaus og fárveikur. Hann varð að sjálfsögðu mjög sorgmæddur og harmaði jafnvel þann dag sem hann fæddist. Vinir hans reyndu að telja hann trú um að hann hefði nú sennilega átt þetta skilið en hann hélt nú ekki. Þegar líður á söguna virðist Job þróa með sér mikla reiði í garð Guðs. Job, sem var réttlátur, fannst ekki réttlátt að slíkar hörmungar skildu dynja yfir hann á meðan ranglátir menn gengu um áhyggjulausir.

Endurgjalds kenningin brást honum algjörlega. Við horfum reyndar upp á það enn í dag að endurgjaldið virðist ekki vera algild kenning, reyndar fjarri lagi. Job þjáðist gríðarlega, velti sér upp úr fortíð sinni, fann enga von í framtíðinni og sá ekkert nema svartnættið framundan sem olli þannig frekari áhyggjum, kvíða og jafnvel þunglyndi. Það má því segja að Job þeyttist um í stormviðri eigin huga eins og strá í vindi. Hann náði aldrei fótfestu og ótti við stjórnlausar aðstæður grípur um sig. En sagan segir einmitt frá miklu stormviðri sem Job lendir í. Þegar Job er aðfram kominn vegna þess að hugur hans var aldrei kyrr, það var aldrei ró né friður innra með honum, gerist nokkuð merkilegt, Guð talar til hans úr stormviðrinu.

Stormar, fellibylir og hvirfilvindar eiga það nefnileg sameiginlegt að þeir hreyfast í hringi og í miðjum hringnum er logn. Í samhengi við núvitund og tengslin við Job er nafn Guðs mikilvægt og mjög athyglisvert að það skuli aðeins vera nefnt í tengslum við ræðu Guðs úr strominum. Samkvæmt annari Mósebók er nafn Guðs „Ég er“. Nafnið lýsir því að vera, og að vera hlýtur að fela það í sér að maður sé ekki hangandi á hugsunum og tilfinningum sem draga mann frá því eina raunverulega sem er, sem er núið, andartakið. Hvað var þá að gerast innra með Job? Hugur hans var búinn að vera eins og strá í vindi og skyndilega fellur hann inn í auga stormsins. Auga stormsins táknar hina náttúrulegu kyrrð sem er að finna undir hugsunum og tilfinningum. Job mætti þar Guði sínum og Guð tók til máls. Ræða Guðs snérist fyrst og fremst um sköpunarverkið þar sem hann beinir sjónum Jobs að mikilfengleika sköpunarinnar. Það að vera í sköpuninni og upplifa undur hennar til fulls merkir að maður þarf að vera í núvitund og reyna að hanga ekki í iðrun og sektarkennd fortíðar eða áhyggjum framtíðarinnar. Ef Job stóð í logninu og horfði á tilfinningar sínar og hugsanir fjúka hjá í stormviðrinu allt í kringum lognið gat hann tekið eftir þeim, séð þær og leyft þeim svo að fara. Það varð algjör losun hjá honum en til þess að geta komist í auga stormsins þurfti hann að komast í gegnum fárviðri hugans fyrst. Það er eðlilegt ferli að fara í gegnum storminn áður en maður kemst í lognið. Enginn skyldi efast um að manneskjan þyrfti ekki að þjást. Við munum standa andspænis mannlegri þjáningu og leiðin í átt að frelsun getur verið erfið og ströng.

Til þess að æfa sig í núvitund eru til ýmsar leiðir, sjálfur kýs ég að nota kyrrðarbæn, sem er kristin íhugunaraðferð. Um þessar mundir er ég að prófa að taka íhugun á hverjum degi í hundrað daga og leyfi fólki að taka þátt í þeirri vegferð í gegnum instagram, instagram story og á facebook. Ég veit ekki hvers ég á að vænta á þessari hundrað daga vegferð en til þess er þetta gert, forvitni og leit að andlegri upplyftingu. Ætli það sé svo ekki bara í höndum Guðs hvað úr þessu ferðalagi verður.

                                                                                                                      

Höf. Dagur Fannar Magnússon
                                                                                                                                                       Guðfræðingur
                                                                                                                                                Instagram: dagurfm

Greinin er unnin upp úr verkefni höfundar í námskeiði í ritskýringu sálma og spekirita Gamla testamenntisins í Guðfræðideild Háskóla Íslands.

Birt í Uncategorized

Aðalfundur Contemplative Outreach á Íslandi

Aðalfundur Contemplative Outreach á Íslandi verður haldinn fimmtudaginn 23. maí kl. 19.30 í Vídalínskirkju.
Dagskrá fundarins:
Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Skýrsla stjórnar lögð fram.
Reikningar lagðir fram til samþykktar.
Lagabreytingar.
Kosning stjórnar.
Önnur mál.
Verið velkomin.

Birt í Uncategorized

Í hvert sinn gerast einhver kraftaverk

Kyrrðarbænaiðkandi deilir upplifun sinni af Kyrrðarbæn og Kyrrðardögum

Ég kynntist kyrrðarbæninni fyrir alvöru 2016 þegar ég skráði mig á kyrrðardaga á vegum Contemplative Outreach á Íslandi. Það er skemmst frá því að segja að ég kynntist sjálfri mér á alveg nýjan hátt. Nú hef ég farið fjórum sinnum á slíka kyrrðardaga og í hvert sinn gerast einhver kraftaverk. Ég sé nýjar hliðar á mér og lífinu. Þar hef ég getað gert upp gamla hluti sem hafa fylgt mér lengi. Að hugleiða í  um þrjár klukkustundir á dag og heyra ekki mælt mál inná milli gerir það að verkum að maður heyrir í sér. Ég heyri hvernig innra talið fyllir öll vit þegar hausinn byrjar að reyna að fylla uppí tómarúmið sem myndast þegar allt áreiti er tekið frá manni. Ég finn fyrir lönguninni til að grípa í símann og opna tölvupóstinn. Svo róast allt, og ég tek eftir hugsunum mínum. Það besta sem gerist, það sem mér þykir vænst um en er jafnframt það erfiðasta er sjá hvernig ég tala við sjálfa mig. Hvernig orðanotkunin er, hvernig sögur ég segi mér, orð og sögur sem hafa verið þarna kannski árum saman. Sögur og fullyrðingar sem ég hef sagt mér jafnvel frá barnæsku en aldrei tekið eftir. Þetta hefur allt verið svo sjálfsagt og áreitið í lífinu verið svo mikið að ég hef aldrei stoppað til að spyrja mig hvers vegna ég tali svona við mig, hvort þetta séu mínar skoðanir, hvaðan viðhorf mín koma og hvort þau séu sönn.

Það er erfitt að mæta sjálfum sér. Ég hef prófað aðrar tegundir íhugunar en tengi best við kyrrðarbænina. Sennilega vegna þess að þegar ég mæti sjálfri mér finnst mér gott að vita að ég er ekki ein, ég er ekki ein á þessum stól að hlusta á minn eigin andadrátt. Kyrrðarbænin gengur útá að samþykkja nærveru Guðs. Það að vita að ég dvel í kærleika þegar ég mæti mér gefur mér kraft til að gera nákvæmlega það, að hlusta á mig, horfast í augu við tilfinningar mínar, skoðanir og þá reynslu sem ég á. Í því liggur kraftaverkið, því það er ekki fyrr en ég viðurkenni sannleikann að ég öðlast getu til að breyta. Þegar ég viðurkenni sannleikann get ég horft á hann gagnrýnum augum og spurt mig hvort þetta sé í raun það sem ég vil, hvort þetta séu skoðanir sem ég vil hafa, hvort þetta séu sögurnar sem ég vil segja sjálfri mér.

Það sem dagleg ástundun kyrrðarbænar gefur mér jafnframt er að þegar ég sest niður í byrjun dags þá heyri ég suðið. Ég heyri hverjar áhyggjur dagsins eru, ég veit hvernig ég er stemmd og þá verður dagurinn alltaf allur annar. Ég næ ekki alltaf að sefa áhyggjur eða leysa vandamál en ef ég er illa stemmd, þá veit ég það og get tekið tillit til mín. Ef ég öskra á vitleysingana í umferðinni eða bölva fólkinu í vinnunni (sem kemur fyrir) þá veit ég hvaðan það kemur, af því að ég heyrði í mér þann morguninn og veit hvaða innra ójafnvægi ég tók með mér út í daginn. Ég get líka fundið fyrir návist Guðs í deginum, ég skil hann ekki eftir á stólnum. Ég sé hann oftar í því sem er að gerast og veit hann er þarna þegar eitthvað kemur uppá. Það er ómetanleg gjöf.

Höfundur vill ekki láta nafns síns getið.

Birt í Uncategorized

Kyrrðarbænanámskeið í Laugarneskirkju

Dagsnámskeið um Kyrrðarbæn (Centering Prayer) verður haldið í Laugarneskirkju þann 9. mars frá kl. 10 – 14. Námskeiðsgjald er kr. 3500, innifalin eru námsgögn og léttur hádegisverður. Kennarar námskeiðsins verða Hjalti Jón Sverrisson og Henning Emil Magnússon ásamt leiðbeinanda sínum Sigurbjörgu Þorgrímsdóttur. Skráning fer fram á kyrrdarbaen@gmail.com eða í síma: 849 2048.
Kyrrðarbæn er íhugunaraðferð úr kristinni hefð sem hefur verið stunduð í einhverri mynd frá frumkristni. Á námskeiðinu verður fjallað um þessa íhugunaraðferð, hún kennd og iðkuð.
Kyrrðarbæn er afar einföld iðkun sem gengur út á að hvíla í nærveru Guðs og samþykkja verk heilags anda innra með okkur. Þó aðferðin sé einföld hefur hún umbreytandi áhrif á iðkandann með auknum andlegum þroska sem leiðir m.a. til aukinnar sjálfsþekkingar og dýpra sambands við Guð og menn.

Birt í Uncategorized

Námskeið um fyrirgefningu í Grindarvíkurkirkju

Námskeið um fyrirgefningu í Grindarvíkurkirkju, Grindavík laugardaginn 2. mars 2019, kl. 09:00-17:00

Hugleiðslubænin „Kyrrðarbæn (Centering Prayer)“ verður iðkuð ásamt fræðslu um fyrirgefninguna og mikilvægi hennar.

Mæting laugardaginn 2. mars, kl. 09:00. Dagskránni lýkur kl. 17:00.

Umsjón: Sr. Elínborg Gísladóttir og Sigurbjörg Þorgrímsdóttir, djáknakandídat, leiðbeinendur Kyrrðarbænarinnar.

Verð: kr. 5.000,-. Innifalið í verðinu er námskeið, hádegisverður, miðdegiskaffi og námskeiðsgögn.

Skráning og nánari upplýsingar fer fram á netf. sigurth@simnet.is eða í síma 861-0361 (Sigurbjörg). Vinsamlega staðfestið skráningu með því að greiða inná reikning Kyrrðarbænasamtakanna: 0114-26-1513 kt. 450613-1500.

Bókin Vakandi hugur, vökult hjarta er fyrsta bók Thomasar Keatings sem kemur út á íslensku og í raun fyrsta bókin sem fjallar um Kyrrðarbænina á íslensku. Thomas Keating var einn af upphafsmönnum Kyrrðarbænarhreyfingarinnar en hann lést á síðasta ári 95 ára að aldri. Hann var prestur, ábóti, munkur og rithöfundur í reglur Benedikts frá Núrsía í Snowmass, Colorado í Bandaríkjunum. Þar hafði hann umsjón með kyrrðardögum með áherslu á iðkun Kyrrðarbænarinnar sem er ein af hornsteinum kristinnar íhugunnar.
Keating skrifaði fjölda bóka um Kyrrðarbænina og kristna íhugun, þeirra á meðal metsölubókina Open Mind, Open Heart sem á íslensku hefur fengið heitið Vakandi hugur, vökult hjarta.
Í þeirri bók lýkur höfundur upp fyrir lesandanum veröld þar sem Guði er ekkert ómögulegt. Nýjar og ævintýralegar víddir opnast, …,,því þegar hugur og hjarta er opið fyrir Guði, sem er óendanlegur , verður maður einnig opinn fyrir ótakmörkuðum möguleikum”.

Birt í Uncategorized

Kyrrðarbænanámskeið í Egilstaðakirkju

Dagsnámskeið um Kyrrðarbæn (Centering Prayer) verður haldið í Egilstaðakirkju þann 23. febrúar frá kl. 10 – 15. Námskeiðsgjald er kr. 3500 (greitt með pen.á staðnum). Innifalið eru námsgögn og léttur hádegisverður. Kennari námskeiðsins verður Dagmar Ósk Atladóttir ásamt leiðbeinanda sínum Sigurbjörgu Þorgrímsdóttur. Skráning fer fram hjá sr. Þorgeiri Arasyni á netfanginu: thorgeir.arason(hja)kirkjan.is eða í síma 847-9289.
Kyrrðarbæn er íhugunaraðferð úr kristinni hefð sem hefur verið stunduð í einhverri mynd frá frumkristni. Á námskeiðinu verður fjallað um þessa íhugunaraðferð, hún kennd og iðkuð.
Kyrrðarbæn er afar einföld iðkun sem gengur út á að hvíla í nærveru Guðs og samþykkja verk heilags anda innra með okkur. Þó aðferðin sé einföld hefur hún umbreytandi áhrif á iðkandann með auknum andlegum þroska sem leiðir m.a. til aukinnar sjálfsþekkingar og dýpra sambands við Guð og menn.

Birt í Uncategorized

Fræðslumorgun í Digraneskirkju fyrir iðkendur Kyrrðarbænarinnar

Digraneskirkja í Kópavogi

Laugardaginn 16. febrúar verður fræðslumorgun í Digraneskirkju, Digranesvegi 82 200 Kópavogi frá kl. 10 – 13. Í upphafi verður tvöföld iðkun með gönguíhugun á milli inn í kirkjunni. Súpa og samfélag verður á eftir sem kostar 1000 kr.

Horft verður á myndband með Thomas Keating um sálfræðimeðferð Guðs og umræður á eftir. Þetta efni Keatings er gagnleg og mikilvæg þekking fyrir alla sem eru farnir af stað í Kyrrðarbæn. Iðkendur Kyrrðarbænarinnar eru allir hjartanleg velkominir. Vinsamlegast látið vita fyrir hádegi á föstudag um mætingu vegna matarinnkaupa á netfangið barafrid@gmail.com.

Kær kveðja, sr Bára og Ingunn, umsjónarmenn Kyrrðarbænarhópsins í Digraneskirkju.

Birt í Uncategorized

Er Kyrrðarbæn núvitund?

Dagur Fannar Magnússon

Núvitund er sögð fela það í sér að upplifa augnablikið í fullnustu sinni án þess að láta hugsanir og tilfinningar úr fortíð og framtíð trufla sig og án þess að dæma upplifunina á nokkurn hátt. Núvitund er ekki aðeins bundin við íhugunaraðferðir heldur er íhugun í raun æfing í núvitund. Líkja mætti þessu við það að fara í ræktina og stunda markvissa hreyfingu til þess að styrkja líkamann. Með íhugun erum við að þjálfa hugann til þess að vera í núinu. Til eru margskonar íhugunaraðferðir til þess að rækta þessa tilteknu vitund sem þróast svo út í það að vera núvist. Núvist er eiginleiki sem hjálpar okkur að dvelja og vera í núinu. Kyrrðarbæn er ein þessara íhugunaraðferða sem styrkja núvitund bæði í íhugun og í daglegu amstri. Rannsóknir á núvitundaraðferðum, þá sérstaklega Núvitundar grundvallaðri streitu minkunn (e. MBSR, Mindfulness-Based Stress Reduction), hafa sýnt fram á að aðferðirnar geti meðal annars stuðlað að bættu líkamlegu og andlegu heilbrigði. Þá hefur til dæmis verið sýnt fram á að við getum virkjað heilann um 10 – 15% umfram það sem við gerum venjulega með því að stunda núvitund. Hvort sem um er að ræða bein tengsl eða ekki hefur einnig verið sýnt fram á bætta námsframmistöðu og að hægt sé að hægja á heilahrörnunarsjúkdómum og elliglöpum. Við ástundun núvitundar dregur heilinn úr framleiðslu streituhormóna og getur þar af leiðandi hjálpað fólki að vinna úr þunglyndi, streitu og kvíða. Þá er núvitund einnig sögð hafa jákvæð áhrif á ónæmis-, hjarta- og æðakerfi. Hér að framan eru aðeins talin upp nokkur dæmi mögulegra jákvæðra áhrifa núvitundar á líf einstaklings og enn er verið að gera fjölda rannsókna.

Þar sem Kyrrðarbænin er mjög áþekk öðrum núvitundaræfingum og mjög sambærileg iðkun Núvitundar grundvallaðri streitu minkunn er ekki ólíklegt að hún geti haft sambærileg áhrif. Kyrrðarbænin er stunduð þannig að viðkomandi velur sér eins til tveggja atkvæða bænaorð sem tákn um ásetning sinn, að hvíla í nærveru Guðs. Biðjandinn kemur sér svo þægilega fyrir í ákveðinn tíma og snýr sér blíðlega að bænarorðinu þegar hugsanir og tilfinningar taka hann frá ásetningnum.  Í ástundunni getur komið að því að hugsanir og tilfinningar leita ekki lengur á mann og maður nær að slíta sig frá veraldlegum áhyggjum. Með öðrum orðum nær maður að tæma hugann og Guð kemst að og fyllir upp í það tóm sem áður voru hugsanir og tilfinningar. En er þá aðferð Kyrrðarbænarinnar bæn? Þegar leitað er svara við þessari spurningu er áhugavert að líta til athugana Friedrich Heiler á bænum. Hann flokkaði þær niður í sjö flokka og þar segir hann frá bænaflokki sem kallast Bæn hins mikilfenglega trúarlega persónuleika (e. the prayer of great religious personalities) en þær skiptast í tvo flokka. Annar flokkurinn, sem er kallaður „dulrænn“, snýr fyrst og fremst að því þegar biðjandinn snýr sér frá heiminum, hinu hlutlæga og jafnvel sjálfinu, að óendanleikanum, þar sem markmiðið er að vera í alsælli einingu (e. ecstatic union) með Guði. Reikandi hugsunum er leift að dvína og hverfa og er biðjandinn þá móttækilegri fyrir nærveru Guðs. Samkvæmt Heiler þarf íhugun að fela í sér meðvitund um nærveru Guðs svo hún sé bæn. Þó er erfiðara að fullyrða um það hvort að allar íhugunaraðferðir sem leiða mann inn í núvitund séu bænir í þessum skilningi. Aftur á móti er fólk sem stundar íhugun mjög reglulega (sama af hvaða gerð hún er) oft sammála um að það upplifi eitthvað sem er stærra, meira og ekki af þessum heimi. Það hefur verið kallað Verandinn, Guð, Brahman eða einfaldlega eitthvað sem fólk getur ekki lýst með orðum. Kyrrðarbænin passar nokkuð vel inn í þessa lýsingu Heilers. Fólk stundar Kyrrðarbæn af því að hún er hluti af trú og trúarhefð þess. Þrátt fyrir að hún sé nokkuð ný af nálinni þá á hún djúpar rætur í sambærilegu bænahaldi, allt til Eyðimerkurfeðranna og mæðranna, í gegnum reglu Benediktarklaustranna, Teresu frá Avila, til bókarinnar The Cloud of Unknowing (frá 14. öld) og fleiri kristinna dulspekihefða. Kyrrðarbænin gæti því verið ein leið til þess upplifa Guðsríki hér og nú ásamt því að upplifa samfélag og einingu með Guði. Það gæti nú verið efni í aðra grein og ríflega það.

 Þessi grein er unnin upp úr BA ritgerð minni „Guðsríki er innra með yður og meðal yðar: Hvað er líkt og ólíkt með kristinni kyrrðarbæn og vestrænni núvitund?“ http://hdl.handle.net/1946/27366 Dagur Fannar Magnússon

Birt í Uncategorized