Kyrrðarbænanámskeið í Digarneskirkju

Kyrrd-i-Digraneskirkju-konur-2018-400x533

Námskeið í Digraneskirkju laugardaginn
29. september kl 10 – 15:30.

Það verður haldið dags námskeið um Kyrrðarbænina í Digraneskirkju 29. september og vikuleg iðkun í framhaldinu. Námskeiðsgjald með hádegisverði er 3.000 krónur. Skráning er á barafrid@digraneskirkja.is,
Sjá nánar á http://www.digraneskirkja.is.

 

Kyrrðarbæn er góð leið til innri hvíldar

Við finnum okkur sjaldnast næðisstund til að hlaða batteríin í asa nútímans. Það er hverri manneskju mikilvægt til að halda jafnvægi og ferskleika. Stöðugt áreiti nútímasamfélags hlúir ekki að gömlum gildum sem rækta andann. Við erum farin að sjá áhrif þess t.d. í auknum kvíða ungmenna sem alltaf eru „á samfélagsvaktinni“  og kunna ekki að kúpla sig út.

Það sem ég vildi sagt hafa er að okkur vantar meiri ró og frið inn í hversdaginn sem er uppspretta orku og blessunar. Nútíminn er að bregðast við þessum halla með Núvitund og Gjörhygli (Mindfullness). Kristin hefð hefur í gegnum aldirnar iðkað Kyrrðarbæn (Centering Prayer) sem er á pari við aðferð Gjörhygli. Fyrir nokkrum áratugum var kyrrðarbæn klaustranna poppuð upp til að mæta asasótt nútímans. Almenningur fór að sækja í kyrrðarbænina því hún skapar vörn og jafnvægi í dagsins önn. Þetta er þögul bæn í 20 mínútur með heilögu orði sem stuðningi. Áhrif af bæninni eru meiri í hversdagslífinu en í bæninni sjálfri. Hún gefur frið, þolinmæði, aukna einbeitingu, sjálfsskilning, orku og það sem kom mér mest á óvart, aukna gleði. Í bæninni verður djúpslökun og því vinnur hún vel á verkjum og hefur nýst mínum vefjargigtarlíkama vel með græðsluferli. Bænin verkar vel með 12 sporunum, hún er í raun 11. spors vinna. Kyrrðarbænin kennir okkur að kúpla frá og skapar þannig rými fyrir nýja hluti hið innra.

Hér eru dæmi frá nokkrum mínum iðkendum:
„Sko ég er ótrúlega óþolinmóð en ég skil ekki hvað er að koma yfir mig, ég er hætt að kippa mér upp yfir því sem angraði mig áður.“ (kona um fimmtugt)
Eldri kona sagði: „Ég er alla daga undirlögð af verkjum en þegar ég sest í þennan stól í bænina þá hverfa allir verkir.“ (kona yfir sjötugt)
„Ég sef miklu betur þessar nætur eftir kyrrðarbænina.“ (kona um fertugt)
Við stöðuga iðkun til lengri tíma finn ég eins og meiri skerpu, það bætist eitthvað tært inn í lífið og eftirvænting til hversdagsins vex.

Kyrrðarbænin er stunduð í hópum víða um land, nánari upplýsingar má sjá á www.kristinihugun.is/bænahópar. Það er gott að fjárfesta í sjálfum sér með iðkun kyrrðarbænar. Verið hjartanlega velkomin í Digraneskirkju.

Auglýsingar
Birt í Uncategorized

Heimsljósmessan – Kyrrðarbæn

heimsljósamessan
Contemplative Outreach á Íslandi verður með kynningarborð á Heimsljósamessu 14. – 16. september í Lágafellsskóla. Stutt kynning á kyrrðarbæn og iðkun fer fram kl. 12 – 13 á laugardeginum og kl. 16 – 17 á sunnudeginum. Umsjónarmaður með kynningarborðinu er Sigurbjörg Þorgrímsdóttir iðnrekstrarfræðingur, djáknakandídat og formaður CO á Íslandi.
Kyrrðarbæn (Centering prayer) er eitt einfaldasta form hugleiðslu sem um getur og geta allir lært hana og stundað, bæði börn og fullorðnir.Tilgangur hennar er að dýpka sambandið við Guð með því að játast Guði hið innra með orðlausri nálgun við Guð. Þjálfunin felst síðan í því að læra að leiða hjá sér truflanir sem sækja á, þann tíma sem bænin stendur yfir.

Bænin hefur umbreytandi áhrif á allt líf iðkandans til dýpri skilnings á Guði, sjálfum sér og umhverfi sínu.

Birt í Uncategorized

Morgunkyrrðarbæn í maí og júní

hnefafylli

Í maí og júní verður boðið upp á kyrrðarbæn í Laugarneskirkju, á miðvikudagsmorgnum kl.8:00.
Kyrrðarbænin er íhugunaraðferð sem hentar vel til að stilla sig inn í daginn og styðja við aðalverkefnið; að mæta deginum með opnum hug og hjarta.

Allir hjartanlega velkomnir.

Birt í Uncategorized

Aðalfundur Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi 2018

ihugunarmessa2

Boðið er til aðalfundar Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi (Contemplative Outreach á Íslandi) mánudaginn 28. maí kl. 18:30 í sal Guðríðarkirkju.

Dagskrá:
1. Kosning fundarstjóra
2. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins árið 2017
3. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár lagður fram.
4. Fjármál, tillögur að fjáröflun.
5. Fjölgun stjórnarmeðlima.
6. Önnur mál

Allir skráðir félagsmenn velkomnir á fundinn.

Stjórn, Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi

Birt í Uncategorized

Þú getur ekki orðið sérstaklega góður í slökun nema með því að stunda slökun.

Helga B

Hugvekja sem Helga Björk Jónsdóttir, djákni, flutti í Vídalínskirkju þann 22. apríl 2018. 

 

Mig langar að segja ykkur sögu af sjálfri mér. Hún er ekki um hvað ég er fullkomin heldur fjallar hún um einn af mínum stóru göllum. Sá galli er að ég er oft svo stressuð og kvíðin. Það er í trúarlegu samhengi oft litið á það sem trúleysi eða galla að geta ekki slakað vel á og fundið fyrir kyrrð og ró innra með sér. Þessari ró sem við sækjumst svo mörg eftir.

 

Guð lofar svo oft í orði sínu að ef við leitum hans muni hann gefa okkur sinn frið. Frið sem er ekki af þessum heimi. Ég er stundum þannig að ég get ekki sofnað fyrir stressi. Ég var samt verri fyrir nokkrum árum. Þá var ég stundum að velta fyrir mér hvort Guð væri ekki að gleyma mér í daglegum önnum sínum Ég gerði fátt annað en biðja hann um frið…innri frið og ég bað hann að færa mér hann strax. Svo hélt ég áfram að gera það sem ég var vön. Ég beið óþreyjufull eftir því að himnarnir opnuðust og friður Guðs sem er æðri öllum skilningi kæmi yfir mig þar sem ég hljóp um eins og hamstur í hjóli.

 

Reyndar var ég svo slæm að ég brann út í starfi mínu sem kennari af því að ég hlustaði ekki á líkama minn þegar hann var kominn með appelsínugult viðvörunarljós og öll einkenni of mikils álags sem endaði með því að ég lenti á vegg. Komst ekki lengra og varð að taka líf mitt til gagngerrar endurskoðunar. Eins og gefur að skilja var ég þá mjög léleg í því að slaka á. Ég hafði í raun engan áhuga á slíkum óþarfa. Að gera ekkert. Ég þoldi ekki tilhugsunina um að hafa ekkert fyrir stafni.

 

Ég er alin upp við mikinn dugnað og í beinan kvenlegg langt aftur í ættir eru ekkert nema miklar valkyrjur sem stoppuðu sjaldan. Ég hef alla mína tíð heyrt sögur af langömmum og ömmum, frænkum og langalangömmum sem létu ekkert stoppa sig og kannski upplifði ég að ég hlyti að ég eiga að vera eins og þær. Mamma mín er duglegasta kona sem ég þekki og hún stoppar sjaldan. Dugnaður er því sú dyggð sem ég lagði hvað mesta áherslu á í lífinu.

 

Ég gleymi því aldrei þegar ég lá á gólfinu í íþróttahúsinu á Reykjalundi (þangað komin af því að ég kunni ekki að slaka á) og allir voru í slökun eftir hádegismatinn. Ég lá þarna á dýnu með teppi yfir mér og átti bara að anda. Anda í takt við slakandi tónlist sem gerði ekkert nema pirra mig. Mér fannst ég hafa verið kyrr í margar klukkustundir þegar ég stalst til að líta á klukkuna og sá að einungis voru liðnar sex mínútur af tímanum og enn voru tuttugu og fjórar eftir! Ég hélt ég myndi deyja úr pirringi. Mig klæjaði út um allt og ég fékk óstöðvandi löngun til þess að hlæja upphátt eða fara. Koma mér út úr þessum illa nýtta tíma við letihangs.

Ég gat ekki staðið upp og farið því þá hefði ég skemmt slökunina fyrir hinum og ég var við það að ærast úr pirringi þegar loksins var slökkt á gargandi yoga-suðinu í græjunum og ég mátti standa á fætur og fara að gera eitthvað af viti.

 

Ég hét sjálfri mér því að undan þessu myndi ég reyna að komast fljótt og rækilega. Ég sá fyrir mér hvernig ég færi að því að sannfæra iðjuþjálfann minn og sjúkraþjálfarann um að ég ætti betur heima í hóp sem „notaði tímann” frekar en að hanga undir teppi í íþróttasal rétt fyrir ofan Mosfellsbæ. Það fór aldrei svo að ég reyndi það því að fyrirlesturinn strax á eftir slökunni fjallaði um listina að gera ekki neitt. Þar hlustaði ég á fagmenn í endurhæfingu segja okkur sem þarna vorum komin, allt um það hversu miklu máli það skiptir að gefa líkamanum tækifæri til þess að slaka á. Að endurhlaða batteríin og gefa sér tækifæri til að vera kyrr í núinu. Þau sögðu líka að slökun væri eins og flest annað í lífinu. Það þyrfti að æfa hana og að maður gæti verið í slæmu slökunarformi til að byrja með en svo breyttist það smátt og smátt en bara ef þú æfir þig. Þú getur ekki orðið sérstaklega góður í slökun nema með því að stunda slökun.

 

Ég man eftir að hafa lagst á koddann þetta kvöld og átt langt samtal við Guð. Ég bað Guð að gefa mér æðruleysi til að sætta mig við það að ég væri ekki góð í þessu en hjápa mér að breyta því. Ég vonaði að hann gæti hjálpað mér að losna við samviskubitið sem fólst í því að ná ekki innri ró þrátt fyrir góðan vilja og bað hann jafnframt að mæta mér þar sem ég væri stödd, halda utan um mig og koma mér í gegnum annan svona slökunartíma og kannski með tíð og tíma gefa að ég kæmist í aðeins betra slökunarform.

 

Ég mætti aftur í hangsið daginn eftir og daginn þar á eftir. Það tók mig þó nokkur skipti að kunna að meta það sem þarna fór fram. Það sem í fyrstu var kvíðvænleg pína eftir hádegi varð hægt og rólega að því sem gerði daginn betri og viðráðanlegri. Líkaminn lærði smátt og smátt að róa sig niður og ég fór að hlakka til þess að endurhlaða orkuna í miðjum deginum. Ég fann að Guð var með mér og í þetta skiptið myndi hann hjálpa mér að læra að slaka á. Ég áttaði mig á því þarna að það er fátt sem ég get gert eins vel og hægt er í eigin mætti. Ég get ekki einu sinni slakað á án hjápar. Ég var búin að sjá þetta í öðrum aðstæðum áður en þarna þegar ég lagði vangetu mína til þess að róa mig niður í fang Guðs kom hann og hjálpaði mér. Hann opnaði faðminn og bauð mér ró og frið ef ég aðeins gæfi mér og honum tíma til þess að æfa það.

 

Einhverra hluta vegna er það þannig að í vanmætti okkar mannanna er Guð sterkur. Hann fær pláss til þess að vinna sitt verk ef við viðurkennum að við getum það ekki.  Síðan þá hef ég stundað slökun flesta daga og finn mikinn mun þegar ég sleppi því. Ég er búin að koma mér upp góðu safni af (pirrandi) slökunartónlist og ég raða deginum mínum þannig upp að ég slaka oftast á um miðjan vinnudag. Stundum keyri ég upp í Heiðmörk og slaka á í bílnum en lang oftast fer ég heim. Þessar slökunarstundir mínar eru sambland af bæn og þögn. Ég leggst fyrir í faðmi Guðs og bara anda. Geri ekkert. Undir teppi. Og það sem meira er…ég elska það!

 

Helga Björk Jónsdóttir djákni í Vídalínskirkju.

Birt í Uncategorized

Íhugunarguðþjónusta #8

ígh8

Íhugunarguðsþjónusta verður nú haldin í áttunda sinn í Háteigskirkju, Háteigsvegi 27-29, 105 Reykjavík, kl. 20:00. Lögð er áhersla á einfaldleika, biblíulega íhugun, söng, þátttöku og kyrrð. Verið velkomin

Birt í Uncategorized

Thomas Keating 95 ára

Thomas Keating

Thomas Keating er einn af stofnendum Contemplative Outreach Ltd í Bandaríkjunum og einn helsti andlegi leiðtogi hreyfingarinnar sem m.a. hefur teygt anga sína til Íslands. Hann fæddist í New York 7. mars 1923 og er því 95 ára í dag. Thomas hefur gefið út fjölda bóka um kristna íhugun og ein þeirra hefur verið gefin út á íslensku, Vökull hugur, vökullt hjarta. Einnig má finna á Youtube mikið af fyrirlestrum þar sem hann deilir sinni djúpu visku á heillandi og húmorískan hátt. Við hvetjum iðkendur Kyrrðarbænarinnar að iðka honum til heiðurs í dag.

Til hamingju með afmælið Thomas Keating.

Birt í Uncategorized

Íhugunarmessa #6

skúta

Íhugunarguðsþjónusta verður nú haldin í sjötta sinn í Friðrikskapellu Hlíðarenda, sunnudaginn 25. febrúar kl. 20:00. Lögð er áhersla á einfaldleika, biblíulega íhugun, söng, þátttöku og kyrrð. Verið velkomin.

Birt í Uncategorized

Námskeið um fyrirgefningu í Guðríðarkirkju, Grafarholti.

Fyrirgefningardúfa

Námskeið um fyrirgefningu  í Guðríðarkirkju, Grafarholti

laugardaginn 3. mars 2018, kl. 09:00-17:00

Hugleiðslubænin „Kyrrðarbæn (Centering Prayer)“ verður iðkuð ásamt fræðslu um fyrirgefninguna og mikilvægi hennar.

Mæting laugardaginn 3. mars, kl. 09:00. Dagskránni lýkur kl. 17:00.

Umsjón: Sr. Elínborg Gísladóttir og Sigurbjörg Þorgrímsdóttir, djáknakandídat, leiðbeinendur Kyrrðarbænarinnar.

Verð: kr. 5.000,-. Innifalið í verðinu er námskeið, hádegisverður, miðdegiskaffi og námskeiðsgögn.

Skráning og nánari upplýsingar fer fram á netf. sigurth@simnet.is eða í síma 861-0361. Vinsamlega staðfestið skráningu með því að greiða inná reikning Kyrrðarbænasamtakanna: 0114-26-1513 kt. 450613-1500.

Bókin Vakandi hugur, vökult hjarta er fyrsta bók Thomasar Keatings sem kemur út á íslensku og í raun fyrsta bókin sem fjallar um Kyrrðarbænina á íslensku. Thomas Keating er einn af upphafsmönnum Kyrrðarbænarhreyfingarinnar, er prestur, fyrrverandi ábóti og rithöfundur og munkur í reglur Benedikts frá Núrsía í Snowmass, Colorado í Bandaríkjunum. Þar hefur hann haft umsjón með kyrrðardögum með áherslu á iðkun Kyrrðarbænarinnar sem ein aðferð kristinnar íhugunnar.

Keating hefur skrifað fjölda bóka um Kyrrðarbænina og kristna íhugun, þeirra á meðal metsölubókina Open Mind, Open Heart sem á íslensku hefur fengið heitið Vakandi hugur, vökult hjarta.

Í þessari bók lýkur höfundur upp fyrir lesandanum veröld þar sem Guði er ekkert ómögulegt. Nýjar og ævintýralegar víddir opnast, …,,því þegar hugur og hjarta er opið fyrir Guði, sem er óendanlegur , verður maður einnig opinn fyrir ótakmörkuðum möguleikum”.

 

 

 

Birt í Uncategorized

Les- og umræðurhópur

Invitation to love

Les- og umræðuhópur einu sinni í mánuði í vetur.

Kyrrðarbænasamtökin stofna til leshóps einu sinni í mánuði í vetur. Fyrirhugað er að hittast í heimahúsi á fimmtudagskvöldum.

Fyrsti hittingur verður 15. febrúar n.k.. á Kristnibraut 22, 2.h. Grafarholti (Sigurbjörg).

Lesin verður bókin eftir Thomas Keating „Invitation to Love, The Way of Christian Contemplation“.

Bókin fæst á staðnum á kr. 2.000,- á meðan birgðir endast. Hún fæst einnig á Amazon. Það er ekki gerð krafa um að vera búin/n að útvega sér bókina fyrir fyrsta hittinginn. Gert er ráð fyrir því að lesnir verði tveir kaflar fyrir hvern lesfund. Skráning fer fram á netfanginu: sigurth@simnet.is eða á facebook þar sem auglýsingin birtist.

Thomas Keating lætur engan ósnortinn með glettni sinni, orðsnilld og fjölfræði. Í bókum hans, sem eru fjölmargar, gefur hann okkur mjög svo áhugaverða nálgun á kristindómnum. Hann nær alla leið að hjartarótum lesandans, heimur sem í senn er gefandi, skemmtilegur og spennandi.

Verið hjartanlega velkomin/n.

Kær kveðja,
Fh Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi
Sigurbjörg

Birt í Uncategorized