Kyrrðarbænanámskeið í Grindavíkurkirkju

Dagsnámskeið um Kyrrðarbæn (Centering Prayer) verður haldið í Grindarvíkurkirkju þann 16. febrúar frá kl. 10 – 15. Námskeiðsgjald er kr. 3500 (greitt með pen.á staðnum). Innifalið eru námsgögn og léttur hádegisverður. Kennarar námskeiðsins verða sr. Elínborg Gísladóttir og Sigurbjörg Þorgrímsdóttir, leiðbeinendur Kyrrðarbænarinnar. Skráning fer fram á netfanginu: srelinborg@simnet.is eða í síma 696-3684 (Elínborg).
Kyrrðarbæn er íhugunaraðferð úr kristinni hefð sem hefur verið stunduð í einhverri mynd frá frumkristni. Á námskeiðinu verður fjallað um þessa íhugunaraðferð, hún kennd og iðkuð.
Kyrrðarbæn er afar einföld iðkun sem gengur út á að hvíla í nærveru Guðs og samþykkja verk heilags anda innra með okkur. Þó aðferðin sé einföld hefur hún umbreytandi áhrif á iðkandann með auknum andlegum þroska sem leiðir m.a. til aukinnar sjálfsþekkingar og dýpra sambands við Guð og menn.

Birt í Uncategorized

Námskeið í Kyrrðarbæn

Dagsnámskeið um Kyrrðarbæn (Centering Prayer) verður haldið í Neskirkju þann 2. febrúar frá kl. 10 – 15. Námskeiðsgjald er kr. 3500, innifalin eru námsgögn og léttur hádegisverður. Kennarar námskeiðsins verða Bylgja Dís Gunnarsdóttir og Erla Björg Káradóttir ásamt leiðbeinanda sínum Sigurbjörgu Þorgrímsdóttur. Skráning fer fram á kyrrdarbaen@gmail.com, í síma: 661 7719 eða hjá prestum Neskirkju.
Kyrrðarbæn er íhugunaraðferð úr kristinni hefð sem hefur verið stunduð í einhverri mynd frá frumkristni. Á námskeiðinu verður fjallað um þessa íhugunaraðferð, hún kennd og iðkuð.
Kyrrðarbæn er afar einföld iðkun sem gengur út á að hvíla í nærveru Guðs og samþykkja verk heilags anda innra með okkur. Þó aðferðin sé einföld hefur hún umbreytandi áhrif á iðkandann með auknum andlegum þroska sem leiðir m.a. til aukinnar sjálfsþekkingar og dýpra sambands við Guð og menn.

Birt í Uncategorized

Ljóð eftir Mary Oliver

Mary Oliver (1935 – 2019)

Ljóðskáldið Mary Oliver lést 17. janúar síðastliðin 83 ára að aldri. Hún hlaut m.a. Pulitzer Prize verðlaunin fyrir skáldskap sinn og var þekkt fyrir að vera hreinskilin og beinskeitt í ljóðum sínum. „Ég gæti ekki ort án náttúrunnar,“ skrifaði hún. „Einhverjir gætu það. En ekki ég. Fyrir mér eru dyrnar inn í skóginn eins og dyrnar inn í musterið.“
 
Mary skrifaði um viðkvæm augnablik og mannlega tilvist af mikilli innsýn og höfðar gjarnan til þeirra sem iðka íhugun. Gyrðir Elíasson hefur þýtt nokkur ljóð eftir hana og hér að neðan er ljóðið Þegar dauðinn kemur í þýðingu hans. Þar sem ég get ekki þýtt eins vel og Gyrðir læt ég fylgja með tilvitnun í Mary óþýdda þar sem hún talar um ljóð:

“For poems are not words, after all, but fires for the cold, ropes let down to the lost, something as necessary as bread in the pockets of the hungry.”

Þegar dauðinn kemur

Þegar dauðinn kemur

einsog hungraður björn að hausti;

þegar dauðinn kemur og tekur alla

glóandi peningana úr buddu sinni

til þess að kaupa mig, og lokar síðan

buddunni með smelli; þegar dauðinn

kemur einsog mislingarnir

þegar dauðinn kemur

einsog ísklumpur milli herðablaðanna

mig langar að stíga inn um dyrnar

full af forvitni, hugsa: hvernig ætli

það sé, þetta hús myrkursins?

Og þess vegna lít ég á allt sem

bræðralag, sem systralag,

og ég lít á tímann aðeins sem hugmynd,

og ég íhuga eilífðina sem annan möguleika.

Og ég hugsa um hvert líf sem blóm, jafn

algengt og akurlilju, og jafn einstakt,

og sérhvert nafn kliðmjúk tónlist á vörum

og vísar, einsog öll tónlist gerir, í átt til

þagnarinnar,

og sérhver látinn er sem hugprútt ljón

og jörðinni svo dýrmætur.

Þegar lokin koma, vil ég geta sagt

að allt mitt líf hafi ég verið brúður

sem giftist undruninni.

Að ég hafi verið brúðgumi sem tók

heiminn mér í fang.

Þegar lokin koma, vil ég ekki þurfa að

velta því fyrir mér hvort ég hafi gert

eitthvað sérstakt úr lífi mínu, og

raunverulegt.

Ég vil ekki verða andvarpandi

og skelfd eða full gremju.

Ég vil ekki að það endi einfaldlega

svo að ég hafi aðeins verið gestur

á þessari jörð.

(Bylgja Dís Gunnarsdóttir)

Birt í Uncategorized

Kyrrðarbæn í Guðríðarkirkju á mánudögum

Kyrrðarbænahópurinn í Guðríðarkirkju hittist á mánudögum kl. 17:30 – 18:30. Byrjendur mæti kl. 17:10. Allir eru hjartanlega velkomnir. Guðrún Fríður Heiðarsdóttir leiðir hópinn.

Birt í Uncategorized

Að byrja og halda áfram

Photo by Pixabay on Pexels.com

Ég hef stundað íhugun af ýmsu tagi undanfarin átta ár og þar af kyrrðarbæn í þrjú ár.

Mér finnst best að byrja morguninn á kyrrðarbæn, núllstilla mig og opna hugann og hjartað fyrir kærleikanum. Ég hef fundið mikinn mun á mér við iðkun íhugunar, ég er kærleiksríkari og þolinmóðari, mér þykir vænt um allt og alla og vil vera besta útgáfan af mér. Aðrir hafa einnig haft orð á því að ég sé skapbetri og meira þurfi til að koma mér úr jafnvægi.

Ég er ósköp venjuleg 50 ára kona og ekki með neina yfirnáttúrulega hæfileika og fyrst ég get stundað kyrrðarbæn getur þú það líka. Það er í raun bara tvennt sem þarf til að stunda kyrrðarbæn, það er að byrja og halda síðan áfram. Gangi okkur öllum vel.

Dagmar Ósk Atladóttir.

Birt í Uncategorized

Kyrrðarbænin er bæn hjartans

Photo by Pixabay on Pexels.com

Kyrrðarbænin er bæn hjartans.

Þegar við hugleiðum og hugsum með hjartanum þá birtist okkur sannleikur lífsins og kærleiksvitund okkar vaknar, þannig að við verðum fær um að elska, bæði okkur sjálf og náunga okkar.

Þannig  getum við bæði gefið af okkur og þegið af alsnægtum alheimsins elsku hins heilaga anda.

Hve gjöfult er vort hjarta, bara ef við gefum okkur næðistund til að hlusta á það.

María Jónasdóttir.

Birt í Uncategorized

Kyrrðarbænahópur í Digraneskirkju

Photo by luizclas on Pexels.com

Kyrrðarbænahópurinn í Digraneskirkju hefur hafið göngu sína aftur á nýju ári og fer fram á miðvikudögum kl. 17.30. Hópurinn var stofnaður í haust eftir vel sótt námskeið um kyrrðarbænina. Leiðbeinendur eru sr. Bára Friðriksdóttir og Ingunn Björnsdóttir. Til að fá nánari upplýsingar er hægt að hafa samband við Ingunni (ingunnbjorsdottir(hjá)simnet.is). Allir eru hjartanlega velkomnir.

Birt í Uncategorized

Ég er svo þakklát fyrir Kyrrðarbænina

Fyrir tæpum fjórum árum kynntist ég Kyrrðarbæninni. Mér leið svo vel alltaf á eftir og stundaði hana vikulega nokkuð óreglulega en mætti eftir bestu getu. Ég hóf svo að stunda hana daglega fyrir u.þ.b. níu mánuðum. Fljótlega eftir það fór ég taka eftir breytingum á lífi mínu. Mér fannst ég öruggari og það sem ég tók mér fyrir hendur auðveldara. Kærleikurinn hefur aukist innra með mér og ég fór að hlusta á það sem aðrir voru að segja með meiri athygli. Einnig fannst mér núvitund mín hafa aukist
þ.e.a.s. hún kemur meira ósjálfrátt. Ég er svo þakklát fyrir Kyrrðarbænina.

Guðrún Fríður Heiðarsdóttir.

Birt í Uncategorized

Bikar minn er barmafullur


Árið 2011 frétti ég af íhugunarhóp í Bókasafninu á Hvolsvelli sem hittist einu sinni í viku. Af forvitni sló ég til og byrjaði að iðka kyrrðarbæn með hópnum. Í fyrstu lét ég nægja að iðka eingöngu með hópnum og fann vellíðan eftir hvert skipti. Árið 2013 las ég bókina Vakandi hugur, vökult hjarta eftir Thomas Keeting. Þá óx skilningur minn á tilgangi kyrrðarbænarinnar og ég byrjaði að iðka daglega. Kyrrðin og kærleikurinn byrjaði að vaxa hraðar í hjarta mínu og fólkið sem stóð mér næst hafði orð á því að ég væri rólegri og þægilegri. 


Sú reynsla að iðka þögula kyrrðarbæn í 20 mínútur, einu sinni til tvisvar á dag hefur komið af stað mögnuðu ferðalagi, umbreytingu og andlegri vakningu í lífi mínu. Að taka svo lengi eftir hugsunum sínum án þess veita þeim sérstaka athygli gerir mér kleift að þekkja mig betur með kostum mínum og göllum. 


Kyrrðin kallar á mig á hverjum degi og þráir það eitt að vera með mér, lækna mig og hreinsa. Með hverjum deginum verð ég ástfangnari af kyrrðinni sem ég kalla Jesú Krist í minni innstu veru. Að eyða tíma mínum í slíku ástarsambandi er uppbyggilegt á alla vegu. Svo æfi ég mig í því að endurspegla þessa elsku til allra í kringum mig og mér reynist það auðvelt þegar ég missi ekki úr iðkuninni. 


Drottinn Jesús Kristur, miskunna mér, syndugum.

Með þakklætiskveðju,
Benedikt Arnar Víðisson

Birt í Uncategorized

Kyrrðardagar í Skálholti í vor

altaristafla

Snemmskráning

Vegna mikillar eftirspurnar verður nú í þriðja sinn boðið uppá vikulanga kyrrðardaga í Skálholti þar sem hugleiðslubænin „Kyrrðarbæn“ er iðkuð. Um er að ræða vikudvöl eða langa helgi. Þar býðst einnig frábært tækifæri til að fá leiðsögn í jóga og djúpslökun sem auka liðleika og veita góðan stuðning við hugleiðslubænina. Áhrifin af Kyrrðarbæninni, jógaæfingum, fræðslu, útiveru og hvíld í Skálholti leggjast á eitt að skapa einstaka dvöl fyrir sál og líkama.

 

Umsjón: Sigurbjörg Þorgrímsdóttir djáknakandídat, sr. Arndís G. Bernhardsdóttir Linn og Auður Bjarnadóttir jógakennari.

 

Annars vegar er hægt að velja langa helgi sem hefst fimmtudagin 25. apríl kl. 18:00 og lýkur sunnudaginn 28. apríl kl. 14:00 eða vikudvöl sem hefst fimmtudaginn 25. apríl kl. 18:00 og lýkur miðvikudaginn 1. maí kl. 14:00. Verð:

Vikudvöl: kr. 71.500. Löng helgi: kr. 40.500. Eftir 15. febrúar 2019 hækkar verðið um 4%.

Hægt er að lækka verðið um 1.500 kr. með því að vera með sín eigin rúmföt. Innifalið í verðinu er m.a. einstaklingsherbergi  með sér baði og fullu fæði.

Sum stéttarfélög taka þátt í kyrrðardögum sem þessum. Hjónaafsláttur. Greiðsludreifing.

Skráning fer fram á vef Skálholts: www.skalholt.is, í síma: 486-8870 (Hólmfríður) eða á netfanginu holmfridur@skalholt.is. Nánari upplýsingar á netfanginu sigurth@simnet.is (Sigurbjörg) og arndis.linn@lagafellskirkja.is (Arndís).

Birt í Uncategorized | Ein athugasemd