Kyrrðardagar fyrir iðkendur í janúar

Janúar

Kæru kyrrðarbænaiðkendur.

Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi bjóða upp á kyrrðardaga í Skálholti í janúar 2019. Um er að ræða langa helgi sem hefst fimmtudaginn 17. janúar kl. 18:00 og lýkur sunnudaginn 20. janúar kl. 14:00. Lögð verður áhersla á iðkun kyrrðarbænarinnar, fræðslu, hvíld og/eða útiveru. Þessi kyrrðardagahelgi er að þessu sinni hugsuð fyrir þá sem hafa iðkað í eitt ár eða lengur. Hámarksfjöldi þátttakanda er 16 manns.

Verð: kr 40.500,- Hægt er að lækka verðið um kr 1.500,- með því að vera með sín eigin rúmföt. Innifalið í verðinu er m.a. einstaklingsherbergi með sér baði og fullt fæði.

Hjónaafsláttur. Greiðsludreifing.

Umsjón: Sr. Arndís Bernhardsdóttir Linn og Sigurbjörg Þorgrímsdóttir, leiðbeinendur Kyrrðarbænarinnar.

Skráning fer fram í síma 486-8870 (Hólmfríður) eða á netfanginu holmfridur@skalholt.is. Nánari uppýsingar á netfanginu sigurth@simnet.is (Sigurbjörg).

Auglýsingar
Birt í Uncategorized

Kyrrðarbæn á Akureyri

akureyri-gullin-kirkja

Kyrrðarbænarhópur sem hefur iðkað í Kapellu Sjúkrahúss Akureyrar hefst á ný miðvikudaginn 10. október frá kl. 17:00 – 18:00. Umsjón með hópnum hefur sr. Guðrún Eggertsdóttir. Allir eru hjartanlega velkomnir í kyrrðina.

Kunnan gerðir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu. 
Sálmarnir 16.11
Birt í Uncategorized

Kyrrðarbæn í Guðríðarkirkju á mánudögum.

silhouette photo of man leaning on heart shaped tree

Photo by Rakicevic Nenad on Pexels.com

Bænahópur sem hittist á mánudögum í Guðríðarkirkju kl. 17:30 – 18:30 byggir á hinni kristnu íhugunarbæn—Kyrrðarbæn (Centering prayer). Leiðbeinandi er Sigurbjörg Þorgrímsdóttir djáknakandídat og leiðbeinandi Kyrrðarbænarinnar. Sigurbjörg veitir nánari upplýsingar í síma 861-0361 og á netfanginu felagsstarf@grafarholt.is. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Nánari upplýsingar um kristna íhugun má finna á heimasíðu samtakanna, www.kristinihugun.is.

Íhugunarbæn

Við kunnum að hafa þá hugmynd um bæn að hún sé hugsanir eða tilfinningar sem við tjáum með orðum. En það er aðeins ein tegund bænar. Í kristinni hefð hefur Íhugunarbæn verið talin einskær gjöf Guðs. Í henni opnast hugur okkar og hjarta, öll vera okkar, fyrir Guði, hinum Æðsta Leyndardómi, handan hugsana, orða og tilfinninga. Fyrir náð verðum við meðvituð um Guð, sem við vitum fyrir trú, að er hið innra með okkur, nálægari okkur en andardráttur okkar, nær okkur en hugsanir okkar, nær okkur en svo að við ráðum nokkru um það, nær en okkar eigin vitund.

Kyrrðarbæn (Centering Prayer)

Kyrrðarbæn er aðferð sem er til þess ætluð að stuðla að Íhugunarbæn með því að búa hæfileika okkar undir að taka á móti þeirri gjöf sem hún er. Hún er tilraun til að kynna forna fræðslu með nútímalegum hætti. Kyrrðarbæn er ekki ætlað að koma í stað annarra bæna, heldur varpar hún miklu fremur á þær nýju ljósi og dýpkar skilning okkar á þeim. Í henni felst hvort tveggja í senn; samband við Guð og sjálfsagi til að varðveita það samband. Með þessari bænaaðferð hverfum við frá samtali við Krist til samveru með honum.

Guðfræðilegur bakgrunnur

Eins og í öllum aðferðum sem leiða til Íhugunarbænar er uppspretta Kyrrðarbænarinnar Heilög þrenning: Faðir, Sonur og Heilagur andi í okkur. Kyrrðarbænin miðar að því að dýpka samband okkar við hinn lifandi Krist. Hún leiðir gjarnan til myndunar trúarsamfélaga þar sem meðlimir bindast gagnkvæmum vina- og kærleiksböndum.

Birt í Uncategorized

Er óraunhæft að upplifa innri frið?

art autumn autumn leaves beautiful

Photo by Vali S. on Pexels.com

Lífstíll okkar flestra einkennist af meiri streitu en æskilegt er. Við gefum okkur oft lítinn tíma til að hvílast, líta inn á við og eiga djúp og innileg samskipti við annað fólk. Þegar við upplifum átök innra með okkur og í umhverfi okkar getur friður virst sem fjarlægt og jafnvel óraunhæft ástand. Sífellt fleiri hafa gripið til þess ráðs að stunda íhugun reglulega og finna þar mótvægi gegn streitunni. Margar mismunandi íhugunaraðferðir eru til og ein af þeim er Kyrrðarbæn (Centering Prayer). Kyrrðarbæn er íhugunaraðferð úr kristinni hefð og hefur verið iðkuð í einhverri mynd frá frumkristni.

Kyrrðarbæn er afar einföld iðkun sem gengur út á að hvíla í nærveru Guðs og samþykkja verk heilags anda innra með okkur. Þó aðferðin sé einföld hefur hún umbreytandi áhrif á iðkandann með auknum andlegum þroska sem leiðir m.a. til aukinnar sjálfsþekkingar og dýpra sambands við Guð og menn.

Jesús sagði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður.
Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“. Jóh.14.27

Bylgja Dís Gunnarsdóttir

Birt í Uncategorized

Nýr bænahópur í Digraneskirkju

digraneskirkja

Laugardaginn 29. september var haldið námskeið um Kyrrðarbænina í Digraneskirkju. Í framhaldi af því hefur verðið stofnaður bænahópur sem hefst nú á miðvikudaginn 3. október kl. 17.30-18.30. Byrjendur mæti kl. 17.15. Umsjón með hópnum hefur sr. Bára Friðriksdóttir (barafrid@gmail.com sími: 891-9628).

Birt í Uncategorized

Kyrrðarbænanámskeið í Digarneskirkju

Kyrrd-i-Digraneskirkju-konur-2018-400x533

Námskeið í Digraneskirkju laugardaginn
29. september kl 10 – 15:30.

Það verður haldið dags námskeið um Kyrrðarbænina í Digraneskirkju 29. september og vikuleg iðkun í framhaldinu. Námskeiðsgjald með hádegisverði er 3.000 krónur. Skráning er á barafrid@digraneskirkja.is,
Sjá nánar á http://www.digraneskirkja.is.

 

Kyrrðarbæn er góð leið til innri hvíldar

Við finnum okkur sjaldnast næðisstund til að hlaða batteríin í asa nútímans. Það er hverri manneskju mikilvægt til að halda jafnvægi og ferskleika. Stöðugt áreiti nútímasamfélags hlúir ekki að gömlum gildum sem rækta andann. Við erum farin að sjá áhrif þess t.d. í auknum kvíða ungmenna sem alltaf eru „á samfélagsvaktinni“  og kunna ekki að kúpla sig út.

Það sem ég vildi sagt hafa er að okkur vantar meiri ró og frið inn í hversdaginn sem er uppspretta orku og blessunar. Nútíminn er að bregðast við þessum halla með Núvitund og Gjörhygli (Mindfullness). Kristin hefð hefur í gegnum aldirnar iðkað Kyrrðarbæn (Centering Prayer) sem er á pari við aðferð Gjörhygli. Fyrir nokkrum áratugum var kyrrðarbæn klaustranna poppuð upp til að mæta asasótt nútímans. Almenningur fór að sækja í kyrrðarbænina því hún skapar vörn og jafnvægi í dagsins önn. Þetta er þögul bæn í 20 mínútur með heilögu orði sem stuðningi. Áhrif af bæninni eru meiri í hversdagslífinu en í bæninni sjálfri. Hún gefur frið, þolinmæði, aukna einbeitingu, sjálfsskilning, orku og það sem kom mér mest á óvart, aukna gleði. Í bæninni verður djúpslökun og því vinnur hún vel á verkjum og hefur nýst mínum vefjargigtarlíkama vel með græðsluferli. Bænin verkar vel með 12 sporunum, hún er í raun 11. spors vinna. Kyrrðarbænin kennir okkur að kúpla frá og skapar þannig rými fyrir nýja hluti hið innra.

Hér eru dæmi frá nokkrum mínum iðkendum:
„Sko ég er ótrúlega óþolinmóð en ég skil ekki hvað er að koma yfir mig, ég er hætt að kippa mér upp yfir því sem angraði mig áður.“ (kona um fimmtugt)
Eldri kona sagði: „Ég er alla daga undirlögð af verkjum en þegar ég sest í þennan stól í bænina þá hverfa allir verkir.“ (kona yfir sjötugt)
„Ég sef miklu betur þessar nætur eftir kyrrðarbænina.“ (kona um fertugt)
Við stöðuga iðkun til lengri tíma finn ég eins og meiri skerpu, það bætist eitthvað tært inn í lífið og eftirvænting til hversdagsins vex.

Kyrrðarbænin er stunduð í hópum víða um land, nánari upplýsingar má sjá á www.kristinihugun.is/bænahópar. Það er gott að fjárfesta í sjálfum sér með iðkun kyrrðarbænar. Verið hjartanlega velkomin í Digraneskirkju.

Birt í Uncategorized

Heimsljósmessan – Kyrrðarbæn

heimsljósamessan
Contemplative Outreach á Íslandi verður með kynningarborð á Heimsljósamessu 14. – 16. september í Lágafellsskóla. Stutt kynning á kyrrðarbæn og iðkun fer fram kl. 12 – 13 á laugardeginum og kl. 16 – 17 á sunnudeginum. Umsjónarmaður með kynningarborðinu er Sigurbjörg Þorgrímsdóttir iðnrekstrarfræðingur, djáknakandídat og formaður CO á Íslandi.
Kyrrðarbæn (Centering prayer) er eitt einfaldasta form hugleiðslu sem um getur og geta allir lært hana og stundað, bæði börn og fullorðnir.Tilgangur hennar er að dýpka sambandið við Guð með því að játast Guði hið innra með orðlausri nálgun við Guð. Þjálfunin felst síðan í því að læra að leiða hjá sér truflanir sem sækja á, þann tíma sem bænin stendur yfir.

Bænin hefur umbreytandi áhrif á allt líf iðkandans til dýpri skilnings á Guði, sjálfum sér og umhverfi sínu.

Birt í Uncategorized

Morgunkyrrðarbæn í maí og júní

hnefafylli

Í maí og júní verður boðið upp á kyrrðarbæn í Laugarneskirkju, á miðvikudagsmorgnum kl.8:00.
Kyrrðarbænin er íhugunaraðferð sem hentar vel til að stilla sig inn í daginn og styðja við aðalverkefnið; að mæta deginum með opnum hug og hjarta.

Allir hjartanlega velkomnir.

Birt í Uncategorized

Aðalfundur Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi 2018

ihugunarmessa2

Boðið er til aðalfundar Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi (Contemplative Outreach á Íslandi) mánudaginn 28. maí kl. 18:30 í sal Guðríðarkirkju.

Dagskrá:
1. Kosning fundarstjóra
2. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins árið 2017
3. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár lagður fram.
4. Fjármál, tillögur að fjáröflun.
5. Fjölgun stjórnarmeðlima.
6. Önnur mál

Allir skráðir félagsmenn velkomnir á fundinn.

Stjórn, Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi

Birt í Uncategorized

Þú getur ekki orðið sérstaklega góður í slökun nema með því að stunda slökun.

Helga B

Hugvekja sem Helga Björk Jónsdóttir, djákni, flutti í Vídalínskirkju þann 22. apríl 2018. 

 

Mig langar að segja ykkur sögu af sjálfri mér. Hún er ekki um hvað ég er fullkomin heldur fjallar hún um einn af mínum stóru göllum. Sá galli er að ég er oft svo stressuð og kvíðin. Það er í trúarlegu samhengi oft litið á það sem trúleysi eða galla að geta ekki slakað vel á og fundið fyrir kyrrð og ró innra með sér. Þessari ró sem við sækjumst svo mörg eftir.

 

Guð lofar svo oft í orði sínu að ef við leitum hans muni hann gefa okkur sinn frið. Frið sem er ekki af þessum heimi. Ég er stundum þannig að ég get ekki sofnað fyrir stressi. Ég var samt verri fyrir nokkrum árum. Þá var ég stundum að velta fyrir mér hvort Guð væri ekki að gleyma mér í daglegum önnum sínum Ég gerði fátt annað en biðja hann um frið…innri frið og ég bað hann að færa mér hann strax. Svo hélt ég áfram að gera það sem ég var vön. Ég beið óþreyjufull eftir því að himnarnir opnuðust og friður Guðs sem er æðri öllum skilningi kæmi yfir mig þar sem ég hljóp um eins og hamstur í hjóli.

 

Reyndar var ég svo slæm að ég brann út í starfi mínu sem kennari af því að ég hlustaði ekki á líkama minn þegar hann var kominn með appelsínugult viðvörunarljós og öll einkenni of mikils álags sem endaði með því að ég lenti á vegg. Komst ekki lengra og varð að taka líf mitt til gagngerrar endurskoðunar. Eins og gefur að skilja var ég þá mjög léleg í því að slaka á. Ég hafði í raun engan áhuga á slíkum óþarfa. Að gera ekkert. Ég þoldi ekki tilhugsunina um að hafa ekkert fyrir stafni.

 

Ég er alin upp við mikinn dugnað og í beinan kvenlegg langt aftur í ættir eru ekkert nema miklar valkyrjur sem stoppuðu sjaldan. Ég hef alla mína tíð heyrt sögur af langömmum og ömmum, frænkum og langalangömmum sem létu ekkert stoppa sig og kannski upplifði ég að ég hlyti að ég eiga að vera eins og þær. Mamma mín er duglegasta kona sem ég þekki og hún stoppar sjaldan. Dugnaður er því sú dyggð sem ég lagði hvað mesta áherslu á í lífinu.

 

Ég gleymi því aldrei þegar ég lá á gólfinu í íþróttahúsinu á Reykjalundi (þangað komin af því að ég kunni ekki að slaka á) og allir voru í slökun eftir hádegismatinn. Ég lá þarna á dýnu með teppi yfir mér og átti bara að anda. Anda í takt við slakandi tónlist sem gerði ekkert nema pirra mig. Mér fannst ég hafa verið kyrr í margar klukkustundir þegar ég stalst til að líta á klukkuna og sá að einungis voru liðnar sex mínútur af tímanum og enn voru tuttugu og fjórar eftir! Ég hélt ég myndi deyja úr pirringi. Mig klæjaði út um allt og ég fékk óstöðvandi löngun til þess að hlæja upphátt eða fara. Koma mér út úr þessum illa nýtta tíma við letihangs.

Ég gat ekki staðið upp og farið því þá hefði ég skemmt slökunina fyrir hinum og ég var við það að ærast úr pirringi þegar loksins var slökkt á gargandi yoga-suðinu í græjunum og ég mátti standa á fætur og fara að gera eitthvað af viti.

 

Ég hét sjálfri mér því að undan þessu myndi ég reyna að komast fljótt og rækilega. Ég sá fyrir mér hvernig ég færi að því að sannfæra iðjuþjálfann minn og sjúkraþjálfarann um að ég ætti betur heima í hóp sem „notaði tímann” frekar en að hanga undir teppi í íþróttasal rétt fyrir ofan Mosfellsbæ. Það fór aldrei svo að ég reyndi það því að fyrirlesturinn strax á eftir slökunni fjallaði um listina að gera ekki neitt. Þar hlustaði ég á fagmenn í endurhæfingu segja okkur sem þarna vorum komin, allt um það hversu miklu máli það skiptir að gefa líkamanum tækifæri til þess að slaka á. Að endurhlaða batteríin og gefa sér tækifæri til að vera kyrr í núinu. Þau sögðu líka að slökun væri eins og flest annað í lífinu. Það þyrfti að æfa hana og að maður gæti verið í slæmu slökunarformi til að byrja með en svo breyttist það smátt og smátt en bara ef þú æfir þig. Þú getur ekki orðið sérstaklega góður í slökun nema með því að stunda slökun.

 

Ég man eftir að hafa lagst á koddann þetta kvöld og átt langt samtal við Guð. Ég bað Guð að gefa mér æðruleysi til að sætta mig við það að ég væri ekki góð í þessu en hjápa mér að breyta því. Ég vonaði að hann gæti hjálpað mér að losna við samviskubitið sem fólst í því að ná ekki innri ró þrátt fyrir góðan vilja og bað hann jafnframt að mæta mér þar sem ég væri stödd, halda utan um mig og koma mér í gegnum annan svona slökunartíma og kannski með tíð og tíma gefa að ég kæmist í aðeins betra slökunarform.

 

Ég mætti aftur í hangsið daginn eftir og daginn þar á eftir. Það tók mig þó nokkur skipti að kunna að meta það sem þarna fór fram. Það sem í fyrstu var kvíðvænleg pína eftir hádegi varð hægt og rólega að því sem gerði daginn betri og viðráðanlegri. Líkaminn lærði smátt og smátt að róa sig niður og ég fór að hlakka til þess að endurhlaða orkuna í miðjum deginum. Ég fann að Guð var með mér og í þetta skiptið myndi hann hjálpa mér að læra að slaka á. Ég áttaði mig á því þarna að það er fátt sem ég get gert eins vel og hægt er í eigin mætti. Ég get ekki einu sinni slakað á án hjápar. Ég var búin að sjá þetta í öðrum aðstæðum áður en þarna þegar ég lagði vangetu mína til þess að róa mig niður í fang Guðs kom hann og hjálpaði mér. Hann opnaði faðminn og bauð mér ró og frið ef ég aðeins gæfi mér og honum tíma til þess að æfa það.

 

Einhverra hluta vegna er það þannig að í vanmætti okkar mannanna er Guð sterkur. Hann fær pláss til þess að vinna sitt verk ef við viðurkennum að við getum það ekki.  Síðan þá hef ég stundað slökun flesta daga og finn mikinn mun þegar ég sleppi því. Ég er búin að koma mér upp góðu safni af (pirrandi) slökunartónlist og ég raða deginum mínum þannig upp að ég slaka oftast á um miðjan vinnudag. Stundum keyri ég upp í Heiðmörk og slaka á í bílnum en lang oftast fer ég heim. Þessar slökunarstundir mínar eru sambland af bæn og þögn. Ég leggst fyrir í faðmi Guðs og bara anda. Geri ekkert. Undir teppi. Og það sem meira er…ég elska það!

 

Helga Björk Jónsdóttir djákni í Vídalínskirkju.

Birt í Uncategorized