Aðferð Kyrrðarbænar / Centering Prayer

Leiðbeiningar við Kyrrðarbæn / Centering prayer
I. Veldu þér bænarorð (heilagt orð) sem tákn um þann ásetning þinn að samþykkja nærveru Guðs og starf hans hið innra með þér (Open Mind, Open Heart).

 1.  Bænarorðið tjáir þann ásetning okkar að samþykkja nærveru Guðs og starf hans hið innra með okkur.
 2. Bænarorðið ber að velja í stuttri bæn til Heilags anda. Gott er að velja orð sem er eitt eða tvö atkvæði, eins og til dæmis: Guð, Jesús, Faðir, Móðir, Abba eða Amen. Einnig má nota orð eins og Friður, Miskunn, Trú, Traust, Elska o.fl.
 3. Sumum kann að falla betur að horfa inn á við til Nærverandi Guðs eða að einbeita sér að andardrætti sínum. Sömu leiðbeiningar eiga við um það og um bænarorðið.
 4. Bænarorðið er ekki heilagt vegna merkingar sinnar heldur í þeim skilningi að við notum það til að tjá þann ásetning okkar að samþykkja nærveru Guðs.
 5. Eftir að við höfum valið okkur bænarorð höldum við okkur við það í bæninni en skiptum ekki, því það krefst umhugsunar.

II. Sestu og komdu þér þægilega fyrir með lokuð augu. Farðu í hljóði með bænarorðið sem tákn um samþykki þitt fyrir nærveru Guðs og starfi hans hið innra með þér.

 1. Með því að koma sér þægilega fyrir er átt við að sitja þægilega en þó ekki svo notalega að það leiði til þess að maður sofni á bænastundinni.
 2. Við gætum þess að vera ávallt bein í baki, sama hver bænastaðan er.
 3. Við lokum augunum til marks um að við sleppum takinu af öllu sem gerist í umhverfi okkar þessa stund.
 4. Við innleiðum bænarorðið hið innra með okkur eins leikandi létt og félli fis á fjöður.
 5. Ef svo færi að við sofnuðum höldum við bæninni áfram þegar við vöknum.

III. Þegar hugsanir trufla okkur snúum við okkur ofur blíðlega að bænarorðinu á ný

 1.  Orðið „hugsanir” er eins konar regnhlífarhugtak fyrir alla skynjun, þar með talið líkamlega skynjun, tilfinningar, ímyndir, minningar, áætlanir, hugsanir, skýringar og andlega reynslu.
 2. Hugsanir eru óhjákvæmilegur, óaðskiljanlegur og eðlilegur hluti Centering prayer.
 3. Að snúa sér hægt og hljótt að bænarorðinu krefst lágmarks áreynslu. Það er það eina sem við aðhöfumst á bænastundinni.
 4. Meðan á bænastundinni stendur getur verið að bænarorðið verði óskýrt eða hverfi jafnvel alveg.

IV. Að lokinni bænastund höldum við kyrru fyrir í þögn í tvær mínútur eða svo, með augun lokuð

 1. Þessar tvær auka mínútur gera okkur kleift að flytja kyrrðina með okkur inn í hversdaginn.
 2. Í bænahópi getur leiðtoginn farið hægt með Faðirvorið á meðan hinir hlusta.